Milli jóla og nýárs hélt dómarinn Davíð Tómas Tómasson út til Belgíu á námskeið til þess að öðlast réttindi sem FIBA alþjóðlegur dómari. Um er að ræða breytt ferli frá því sem áður hefur verið við lýði en búið er að leggja niður gömlu prófin og þurfa verðandi FIBA-dómarar að sækja röð námskeiða. Það kemur svo í hlut hvers aðildarlands FIBA að tilnefna sína FIBA dómara út frá þeim dómarakvóta sem hvert land fær. Karfan.is ræddi við Davíð Tómas sem hefur lagt gríðarlega mikið á sig síðustu ár til þess að freista þess að gerast alþjóðlegur dómari.
Davíð Tómas er 27 ára gamall og dæmir fyrir Íslandsmeistara KR. „13 ára gamall braut ég á mér annað hnéð og fitnaði mikið eftir það og var þá ekki eins snöggur í körfunni og maður þurfti að vera enda fremur lágvaxinn, ég varð bara lítill og hægur og það hjálpar ekki mikið í þessari íþrótt,“ sagði Davíð en um 16 ára aldur hóf hann að þjálfa enda vildi hann ekki segja skilið við ástríðu sína, körfubolta.
„Ég var að þjálfa yngri flokka og það fannst mér svolítið eins og leikjanámskeið og fann mig ekkert endilega í þessum sporum,“ sagði Davíð sem dæmdi sinn fyrsta úrvalsdeildarleik tvítugur að aldri og hefur því dæmt í úrvalsdeild í sjö ár. „Þetta verður alltaf skemmtilegra en auðvitað er þetta krefjandi, maður finnur samt að maður verður betri og meira mark tekið á manni. Þegar ég dæmdi minn fyrsta leik þá sáu allir að maður var að byrja og gáfu smá slaka en einu til tveimur árum seinna var sá slaki horfinn og þá varð þetta erfiðara. Kröfurnar verða alltaf meiri og meiri og 22 ára gamall var maður kannski ekki orðinn nægilega harðnaður í þetta. Menn litu kannski á mig sem 22 ára pjakk og tóku ekkert endilega mikið mark á því sem maður var að gera, enda að dæma með „eldgömlum körlum,“ sagði Davíð léttur á manninn og sendir sér heldri mönnum í stéttinni léttan tón.
Fjölin fannst eitt kvöldið þegar Georgía Olga, systir Davíðs, kom heim eftir að hafa dæmt einn af fyrstu leikjunum sínum í boltanum en á sama tíma var Davíð ekki kominn í dómgæsluna. „Hún var með glampa í augnum og munnræpu, talaði um hvað allir þessir gömlu karlar væru skemmtilegir svo ég bara varð að prófa þetta. Bjarni Gaukur hélt svo dómaranámskeið í Frostaskjóli en það var námskeið upp á gamla skólann, fjögur námskeið á einni helgi og dæmt á fjölliðamóti. Um 18 ára aldur var ég bara orðinn ofurseldur og vissi að mig langaði til þess að verða dómari og alþjóðlegur dómari og ég var tilbúinn til þess að leggja á mig alla þá vinnu svo þannig gæti orðið.“
FIBA er að breyta sínum aðferðum og verður málum þannig háttað að hvert land mun fá úthlutað plássum fyrir alþjóðlega dómara. Davíð segir offramboð af FIBA-domurum í Evrópu. „Það hefur ekkert verið gefið enn út um hvað Ísland muni t.d. fá mörg pláss en hér áður fyrr var alltaf eitt „klíník“ fyrir dómarana en nú er þetta orðið að um það bil tveggja ára ferli þar sem maður fer á mörg námskeið, skrifleg próf, dæmir leiki, tekur þrekpróf, situr fyrirlestra og fleira. KKÍ fær svo skýrslu um mína frammistöðu og tekur á endanum ákvörðun um hvort ég verði þeirra fulltrúi út frá þeim dómarafjölda sem Ísland fær úthlutað,“ sagði Davíð og finnst honum að nokkrir hlutir mættu betur fara í ferlinu.
„Þetta er fremur ógegnsætt, ég fæ ekki að sjá eða vita hvað ég var t.d. að gera rangt. Þar af leiðandi getur FIBA komið skilaboðum til KKÍ um að þeim lítist ekki á mig án þess að tilgreina sérstakar ástæður. Það skiptir allt máli þegar maður fer þarna út og inn í þetta ferli, maður þarf að standa sig vel á velli og koma vel fram. Hvað dulúðina varðar á bak við þetta gæti það mögulega verið að þeir vilja aldrei gefa út hvaða spurningar hafi komið á prófum, mögulega er það til þess að geta notað þær aftur.“
Sumir halda að þetta sé eitthvað frí!
Milli jóla og nýárs hélt Davíð út til Belgíu og var námskeiðið sem hann sótti sett upp í kringum U-19 ára mót með liðum frá Serbíu, Ísrael og yngri landsliði Belga. „Þarna voru allskyns próf, svo var dæmt og fjölmargir fyrirlestar. Sumir halda að þetta sé eitthvað frí en svo er ekki. Það er vaknað fyrir 7 á morgnana og keyrsla allan daginn. Einn daginn var maður mættur út af hótelinu á slaginu 7, þrekpróf, skriflegt próf og svo ensku próf og dæmdir tveir leikir. Þetta tekur á og á líka að gera það, það er verið að undirbúa mann fyrir stór verkefni og mér fannst þetta bara ganga vel. Ég var vissulega litli karlinn frá Íslandi en þarna voru dómarar frá Ítalíu, Póllandi og víðar, frá löndum þar sem körfuknattleikur er talsvert framar en hjá okkur og það var gott að sjá að maður var ekkert verri en þetta fólk. Gott fyrir sjálfstraustið að sjá að maður var í raun bara á pari við aðra þarna.“
En hvenær er svo von á niðurstöðum?
„Maður veit í raun ekkert, við fáum einhverntíman að vita þetta en svörin komandi fyrr en seinna. Ég verð ekki FIBA dómari á árinu 2016 þar sem það eru Ólympíuleikar og ég hef heyrt að þeir taki ekki inn nýja dómara á Ólympíuári. 2017 gæti þá orðið árið en það fer eins og áður segir líka eftir því hve mörg pláss Ísland fær. Við eigum fjóra FIBA dómara og tveir þeirra eru virkir. Í raun er þetta bara bið en í sumar ætla ég að taka mér körfuboltalaust frí í fyrsta sinn í fimm ár,“ sagði Davíð sem ætlar að ferðast um Asíu, til Víetnam, Balí og víðar.
Enginn er eyland sagði eitthvert snjallmennið og það á við í tilfelli dómarans unga. „Ég hef fengið mikla hjálp frá Sigmundi Má, Leifi Garðars og Kristni Óskarssyni. Þeir þekkja vel hvernig þessir hlutir virka og Kristinn sem er FIBA instructor á Íslandi og hefur þá skyldu að þjálfa upp verðandi FIBA dómara sagði mér t.d. að þetta væri mikið nám þó kennslan væri ekki sérstaklega mikil.
Ég hef lagt mikið á mig til að komast á þennan stað og mér var sem dæmi bent á að að laga samskipti mín og fór þá til íþróttasálfræðings til að vinna í mínum málum. Af þessum sökum er það svo gott að fá þessa viðurkenningu, að vera tilnefndur í þetta af dómaranefnd og KKÍ enda er þetta stórt tækifæri. Þessir þrír dómarar sem og Davíð Kr. Hreiðarsson eiga mikið hrós skilið. Davíð tók mig undir sinn verndarvæng þegar ég var að byrja í þessu og hefur verið stoð mín og stytta í öllu þessu ferli. Að koma ungur inn í hóp af „eldgömlum“ körlum er erfitt,“ sagði Davíð léttur á manninn en gerðist svo öllu alvarlegri: „þá er mikilvægt að hafa einhvern til staðar sem stendur við bakið á manni.“ Þá á ég aðilum eins og Rúnari Birgi og Rögnvaldi í dómaranefnd einnig mikið að þakka.
Nú fer allt í gang – febrúarfár
Nú styttist í að boltinn fari aftur að skoppa hér heimafyrir og Davíð er klár í þann slag. Með hverju nýju ári er markað hálft tímabil og nú ganga leikir í garð sem alla jafna vega þungt og spennan eykst…allstaðar. „Það er talað um March-madness í Bandaríkjunum en hér tölum við um svona „febrúar-fár.“ Það er meira í húfi, menn verða æstari og sem dómari finnur maður mikinn mun á mótinu fyrir jól og eftir jól eins og gefur að skilja. Skapið getur hlaupið með fólk í gönur og pressan verður meiri, frá bæði áhorfendum, leikmönnum og þjálfurum og þrýstingurinn verður allur meiri. Til að beisla þennan þrýsting þarf að vera í góðu líkamlegu formi en mestu máli skiptir að vera sterkur hugarfarslega. Líkalmega formið hjálpar til við að taka góðar ákvarðanir þegar mikið liggur við og láta þrýstinginn ekki beygja eða brjóta sig. Hann kemur allstaðar frá og maður þarf að passa sig, láta leikinn ráða för og vera sterkur andlega.“
Myndir/ Frá för Davíðs til Belgíu milli jóla og nýárs.