Haukar og Cyltech, Tjakkalausnir, hafa gert með sér samkomulag um að Cyltech verði einn af aðal samstarfsaðilum deildarinnar út tímabilið ´22-´23. Undirritað var fyrir leik Hauka og Fjölnis í Subway-deild kvenna í Ólafssal á fimmtudaginn síðasta.
Cyltech er í eigu Hauks Óskarssonar en Haukur hefur verið fastamaður í karlaliði Hauka undanfarin 15 ár. Haukur tók sér frí frá körfubolta á síðustu leiktíð á meðan þeir félagar voru að koma fyrirtækinu á laggirnar en var svo kynntur til leiks í upphafi þessarar leiktíðar. Hann hefur hins vegar ekki náð að æfa með liðinu vegna anna í uppbyggingu Cyltech á þessari leiktíð en að sjálfsögðu binda Haukar vonir um að hann snúi til baka enda reynslumikill leikmaður á ferð.
Cyltech, Tjakkalausnir er ungt fyrirtæki í Hafnarfirði sem ásamt Hauki er í eigu Agnars Más Karlsonar og Hrafns Helgasonar.
Í tilefni samningsins voru frumsýndir nýjir búningar meistaraflokkanna þar sem merki Cyltech er framan á treyjum og sagðist Haukur hafa spilað í mörgum Haukatreyjum og átt margar af sínum bestu minningum í þeim en þó hann hafi ekki spilað í þessari þá væri hann hrikalega stoltur af henni
Fyrirtækið, eins og nafnið gefur til kynna, sérhæfir sig í þjónustu á glussa- og lofttjökkum og hefur aðsetur á Völlunum í Hafnarfirði og hvetjum við alla þá sem að þurfa á þeirra þjónustu að halda að kanna það sem þeir hafa upp á að bjóða.
Bragi Magnússon, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, sagði í kjölfar undirskriftarinnar að það væri mikill heiður að fá Cyltech til liðs við deildina. “Það er mér mikill heiður og ánægja að fá Cyltech til liðs við okkur. Það er mikið Haukahjarta þarna og ég er viss um að framundan er gott og farsælt samstarf enda eru þarna eintómir snillingar.”