Á Ásvöllum áttust við Haukar og Snæfell í 6. Umferð Iceland-Express deildarinnar. Haukar léku með nýjan útlenskan leikmann innanborðs, en hún heitir Katie Snodgrass og spilar stöðu bakvarðar. Hún virtist falla vel að leik Haukastúlkna og unnu þær leikinn 70-59.
Snæfell byrjaði leikinn mun betur og skoruðu fyrstu 7 stig leiksins. Þær héldu áfram að gefa í og það var ekki fyrr en um miðjan leikhlutann að Haukar vöknuðu af værum blundi og minnkuðu muninnn í 5 stig. Inga Muciniece átti þó síðasta orðið og staðan eftir fyrsta leikhluta því 10-17 fyrir gestina.
Annar leikhluti var mjög jafn en Haukar náðu að minnka forskot gestanna hægt og bítandi og þegar tvær mínútur voru eftir að hálfleiknum náðu þær að jafna 30-30. Haukastelpur voru að spila miklu betri varnarleik og virkaði svæðisvörnin vel hjá þeim. Staðan í hálfleik var jöfn 32-32.
Í seinni hálfleik byrjuðu Haukar mun betur, öfugt við fyrri hálfleikinn, og skoruðu fyrstu 12 stigin áður en Björg Guðrún Einarsdóttir setti niður þrist. Það sem eftir lifði leikhlutans skiptust liðin á að skora og var staðan að honum loknum 47-39.
Þegar tvær mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta minnkuðu gestirnir muninn í 6 stig 51-45. Haukar skoruðu þá 6 stig í röð og munurinn þá orðinn 12 stig. Sigur heimastúlkna var í raun aldrei í hættu eftir það þó að gestirnir hafi aldrei gefist upp.
Tölfræði
Haukar: Katie Snodgrass 23 stig/6 fráköst/5 stoðsendingar, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 15 stig/16 fráköst/5 stoðsendingar, Íris Sverrisdóttir og Gunnhildur Gunnarsdóttir 9 stig
Snæfell: Inga Muciniece 18 stig/15 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 10 stig, Sade Logan og Helga Hjördís Björgvinsdóttir 9 stig