Haukar tryggðu sæti sitt í úrslitakeppninni þetta árið með sigri á KFÍ á Ásvöllum í kvöld. Seinkun varð á leiknum um 10 mínútur og var fyrsta leikhluta að ljúka í öðrum leikjum þegar að leikar hófust á Ásvöllum. Seinkunin stafaði af að villu á skýrslu og í tölfræði sem ekki komst upp fyrr en í leikmenn voru klárir í uppkast.
Leikurinn var nokkuð jafn og ljóst að KFÍ menn ætluðu ekki að skilja við Iceland Express deildina þegjandi og hljóðalaust á meðan Haukar sýndu engin merki um bata frá því í síðustu leikjum en nokkuð stór töp hafa litið dagsins ljós hjá Haukaliðinu í síðustu leikjum.
Örn Sigurðarson opnaði leikinn með þriggja stiga körfu og kom Haukum í 3-0. Pance Ilievski jafnaði fyrir KFÍ en hann var sjóðandi heitur í leiknum og dróg vagninn fyrir gestina í fjarveru Craig Schoen sem er meiddur. KFÍ menn voru miklum ham á upphafmínútunum og náðu nokkra stiga forskoti. Leikur Hauka var á meðan hálf vandræðalegur og vörnin alls ekki góð. Þrátt fyrir það náðu Hauka að halda þessu jöfnu og var staðan 21-21 eftir fyrsta leikhluta.
Semaj Inge fékk sína fjórðu villu í upphafi annars leikhluta þegar að dæmdur var á hann ruðningur og tæknivilla í kjölfarið en hann var þegar kominn með tvær villur í fyrsta leikhluta. KFÍ setti allt í gang og náði góðu forskoti, 23-34, og fór um stuðningsmenn Hauka. Haukar spýttu í lófana áður en leikhlutanum lauk og jöfnuðu leikinn 38-38 og fór svo með eins stigs forystu inn í hálfleikinn 39-38.
Haukar komu vel stemmdir til leiks í seinni hálfleik og var vörn þeirra orðinn þéttari en hún hefur verið í síðustu leikjum. Áfram hélt Inge að sitja á bekknum og steig þá Gerald Robinson upp og réðu leikmenn KFÍ engan veginn við hann. Hans stærsti löstur, vítaskot, fór ofaní hvert af öðru og var hann jafn besti leikmaður Hauka framan af leik. Haukar jukum muninn aftur upp í 10 stig en frábær leikur Ilievski hélt KFÍ mönnum inn í leiknum. Haukar leiddu með níu stigum eftir leikhlutann og leikurinn þannig lagað séð opinn ennþá þar sem að KFÍ hafði komið með góð áhlaup fyrr í leiknum.
Í upphafi fjórða leikhluta sauð allt uppúr. Darco Milosevic braut gróflega á Davíð Páli Hermannsyni leikmanni Hauka og lenti þeim saman. Davíð var algjörlega á því að sýna honum hvar hann kaupir ölið og svaraði honum með látum. Menn ruku til af bekkjum og þjálfarar, dómarar og leikmenn þurftu að hafa sig alla við til að róa til friðar. Milosevic fékk beinan brottrekstur og var gert hlé á leiknum. Dómarar nýttu sér tæknina og litu í heimsókn til félaganna hjá Haukar TV og fóru yfir hvað hafði gerst.
Eftir miklar pælingar og niðurskrif varð dómurinn sá að alls átta leikmenn voru sendir í sturtu, fjórir úr hvoru liði. Hjá Haukum voru það Steinar Aronsson, Óskar Ingi Magnússon, Davíð Páll Hermannsson og Gerald Robinson en hjá KFÍ voru það Darco Milosevic, Ingvar Viktorsson, Nebojsa Knezevic og Carl Josey. Þegar leikar hófust á ný voru einungis sex leikmenn KFÍ eftir og sjö leikmenn Hauka en fyrir þetta atvik hafi Emil Barja farið meiddur af velli. Emil endaði á bráðamóttöku eftir að hafa fengið fingur í augað og í ljósi þess að blæðing var úr auga og hann sá ekkert með því ákvað hann að láta kíkja á það. Eftir leik fengust þær fréttir að Emil var hress og í lagi.
Á meðan dómarar ákváðu hvað þeir skildu gera komu fréttir úr Grafarvogi en þar lögðu Fjölnismenn ÍR og ljóst að Haukar urðu hreinlega að sigra leikinn ætluðu þeir ekki að enda tímabilið í kvöld.
KFÍ minnkaði muninn í fjögur stig þegar átta mínútur voru eftir og leikurinn gal opinn. Haukar sýndu þá mátt sinn og kláruðu leikinn á næstu tveimur mínútum breyttu þeir stöðunni úr 63-59 í 75-59 og var eftirleikurinn auðveldur. Mest varð munurinn 22 stig undir lok leiks og á endanum unnu Haukar með 20 stigum 88-68.
Tölfræði leiksins.
Haukar: Gerald Robinson 25/15 fráköst/3 varin skot, Örn Sigurðarson 20/9 fráköst, Semaj Inge 15/10 fráköst, Sigurður Þór Einarsson 8, Emil Barja 6, Haukur Óskarsson 5, Sveinn Ómar Sveinsson 5/4 fráköst, Davíð Páll Hermannsson 2 og Óskar Ingi Magnússon 2,
KFÍ: Pance Ilievski 26, Richard McNutt 13/10 fráköst, Carl Josey 9/8 fráköst, Darco Milosevic 8/6 fráköst, Ingvar Bjarni Viktorsson 5, Nebojsa Knezevic 4/4 fráköst og Ari Gylfason 3.
Mynd: Gerald Robinson var besti maður Hauka í kvöld þrátt fyrir að hafa þurft að fara snemma í sturtu – [email protected]