Emil Barja, leikmaður Hauka í Domino´s-deild karla, hefur verið útnefndur íþróttamaður sveitarfélagsins Voga árið 2015. Einhverjir kynnu að reka upp stór augu enda Emil kjölfestuleikmaður Hauka í Hafnarfirði.
Það sem kannski færri vita er að þessi harði bakvörður er búsettur í Sveitarfélaginu Vogum og því gjaldgengur í kjörið.
Á vef sveitarfélagsins segir:
“Á yfirstandandi tímabili er Emil með 7,5 stig, 7,3 fráköst og 4,5 stoðsendingar að meðaltali í leik. Á árinu 2015 rauf Emil 200 leikja múrinn fyrir meistaraflokk Hauka, var valinn mikilvægasti leikmaðurinn sem og bestur að mati stuðningsmanna. Hann var svo valinn í æfingahóp A landsliðsins fyrir þátttöku liðsins á EM. Sem fyrirliði leiddi hann svo lið Hauka í undanúrslit Íslandsmótsins vorið 2015.“