spot_img
HomeFréttirHáspenna á Héraði

Háspenna á Héraði

Ísfirðingar gerðu góða ferð austur á Hérað og lögðu heimamenn í Hetti tvívegis á tveimur dögum. KFÍ trónir því sem fyrr á toppi deildarinnar og hafa nú unnið alla níu leiki sína en Hattarmenn, sem voru í öðru sæti fyrir leikina tvo, féllu niður í það fjórða.
Fyrri leikurinn fór fram á föstudagskvöldinu og náði aldrei að verða verulega spennandi. Gestirnir náðu snemma frumkvæðinu og bættu jafnt og þétt við forskot sitt þannig að sigur þeirra varð aldrei í hættu. Heimamenn náðu að vísu að vinna fjórða leikhluta með einu stigi en forskotið fyrir þann leikhluta var sautján stig og Hattarmenn ógnuðu aldrei að ráði. Munurinn á liðunum í þessum leik var tvímælalaust breiddin en sex leikmenn KFÍ skoruðu 10 stig eða meira, mest Ari Gylfason sem setti 22 stig en Craig Schoen, Edin Suljic og Christopher Miller-Williams áttu einnig góðan leik. Hjá Hetti var Michael Sloan bestur, skoraði 29 stig og tók 11 fráköst. Trevon Bryant skoraði 19 stig og Bjarki Oddsson 16. Miklu munaði fyrir heimamenn að Viðar Örn Hafsteinsson þjálfari komst aldrei í gang þrátt fyrir að leika meira en oft áður á tímabilinu. Hann hitti úr einu af átta þriggja stiga skotum og misnotaði öll fimm tveggja stiga skotin.
 
Síðari leikurinn var leikinn á laugardag og var mun meira spennandi en sá fyrri. Jafnræði var með liðum í upphafi. Ólíkur taktur var í leik liðanna í upphafi. Höttur lék hægari og skipulagðari sóknarleik á meðan að KFÍ leitaðist við að keyra upp hraðann og láta boltann gang frjálslega milli manna. Það var hins vegar Michael Sloan sem ákvað að heimamenn ættu að hafa forystuna eftir fyrsta leikhlutann en hann tók sig til og negldi niður níu stigum í röð og staðan 27-21 að loknum fyrsta leikhluta. Heimamenn héldu áfram frumkvæðinu í öðrum leikhluta en með góðum kafla tókst þeim þó að minnka muninn og staðan í hálfleik var 48-46 fyrir heimamenn. Það var síðan aðeins annað liðið sem mætti tilbúið til seinni hálfleiks. KFÍ keyrði á heimamenn og náði á örskotsstundu upp 13 stiga forskoti og gerðu sig líklega til að halda því. Fátt virtist ætla að ganga hjá heimamönnum og þegar þrjár mínútur voru eftir af fjórðungnum og Höttur 15 stigum undir tók Viðar þjálfari heimamanna leikhlé. Skilaboðin voru skýr og heyrðust skilmerkilega um allt hús svo bergmálaði af öllum veggjum. „Ekki gefast upp!“ Eftir þetta var eins og kviknaði á heimamönnum, þeir náðu smátt og smátt að minnka muninn og lokamínúturnar urðu æsispennandi.
 
Þegar rúm mínúta var eftir náði Michael Sloan að minnka muninn í tvö stig með þriggja stiga körfu og háspenna í húsinu. En þrátt fyrir mikinn darraðadans héldu leikmenn KFÍ haus að lokum. Ari Gylfason tók gríðarlega mikilvægt sóknarfrákast eftir að þriggja stiga skot Kristjáns Andréssonar geigaði þegar um 15 sekúndur voru og munurinn aðeins 1 stig. Ari fór síðan á vítalínuna og brást ekki bogalistin heldur skoraði tvívegis. Hattarmenn, sem ekki áttu inni leikhlé, brunuðu í sókn en KFÍ náði að loka á Michael Sloan og örvæntingarfull tilraun Bjarka Oddssonar til að jafna endaði víðsfjarri körfunni. KFÍ bætti við einu stigi af vítalínunnni í lokin og unnu fjögurra stiga sigur 99-95.
 
Michael Sloan var langbestur heimamanna, skoraði 43 stig og lék hverja einustu mínútu. Trevon Bryant skoraði 15 stig og Viðar Örn Hafsteinsson 14. Í liði KFÍ skoruðu Christopher Miller-Williams og Edin Suljic 25 stig hvor en besti maður liðsins var Craig Schoen með 19 stig og 10 stoðsendingar sem voru margar af dýrari gerðinni.
 
Pétur Sigurðsson þjálfari KFÍ var mjög ánægður með sigrana tvo. „Ég bjóst náttúrulega við hörkuleikjum hér á Egilsstöðum. Það er erfitt að koma hingað, erfiður völlur til að spila á og ég er gríðarlega sáttur með að ná að landa þessum stigum. Sérstaklega síðari leiknum sem við vorum komnir með í hendurnar en náðum einhvern veginn að klúðra því niður. En við sýndum ágætis karakter og sýndum góða stillingu í lokin að klára leikinn þegar hann var á línunni.“ Pétur vildi alls ekki viðurkenna að hans menn væru búnir að bóka úrvalsdeildarsæti á næsti leiktíð. „Alls ekki, alls ekki. Markmiðið hjá okkur er að vinna hvern einasta leik og við erum ekkert að hugsa of langt fram í tímann. Það þýðir ekkert að vera að hugsa um einhverja bikara og einhverja titla þegar mótið er ekki einu sinni hálfnað.“ Pétur hrósaði Hattarliðinu og þá sérstaklega Michael Sloan og ungu leikmönnunum, Andrési Kristleifssyni og Eysteini Ævarssyni. „Þetta eru 16 eða 17 ára gamlir strákar og þeir lofa mjög góðu fyrir framtíð körfuboltans hér á Egilsstöðum.“
 
Viðar þjálfari Hattar var eðlilega ekki jafn ánægður í leikslok. „Við töpum hér í dag með hvað, fjórum stigum. Eru þeir þá miklu betri?“ Sagði hann aðspurður hvort KFÍ væru númeri of stórir. „Þetta hefði getað orðið öðruvísi hefðum við átt leikhlé inni undir lokin. Hefðum þá getað tekið boltann inn á miðju með nokkrar sekúndur eftir. En þetta gekk ekki í dag.“ En markmið Hattarmanna eru skýr. „Nú erum við búnir að missa KFÍ sex stigum á undan okkur svo við stefnum þá á annað sætið.“
 
Mynd og umfjöllun/ Stefán Bogi
 
  
Fréttir
- Auglýsing -