12:35
{mosimage}
(Hannes í púltinu að Flúðum á síðasta ársþingi KKÍ)
Sigurður Ingimundarson framlengdi í dag samningi sínum til tveggja ára sem þjálfari A-landsliðs karla og þá var Ágúst Sigurður Björgvinsson ráðinn þjálfari A-landsliðs kvenna og tekur hann við því starfi af Guðjóni Skúlasyni. Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands sagði í samtali við Karfan.is að ráðningarnar væru ánægjulegar fyrir íslenskan körfubolta.
,,Það er mjög ánægjulegt fyrir íslenskan körfubolta að Sigurður sé tilbúinn til þess að vera áfram með okkur. Hann hefur sýnt það með árangri sínum að hann er mjög góður þjálfari og hefur mikla þekkingu á evrópskum körfuknattleik sem er mjög gott fyrir okkur núna þegar við stefnum hærra með landsliðin okkar,” sagði Hannes en voru einhverjir aðrir þjálfarar sem komu til greina?
,,Það var aldrei rætt neitt annað en að ganga fyrst til viðræðna við Sigurð þar sem það er einlægur vilji stjórnar og landsliðsnefndar karla að hafa Sigurð áfram við stjórnartaumana,” sagði Hannes. Þá tók Ágúst Björgvinsson við kvennaliðinu en Hannes segir Ágúst hafa mjög mikla þekkingu á kvennakörfuknattleik og hafi m.a. þjálfað flesta leikmenn A landsliðs kvenna í yngri landsliðum Íslands.
,,Samningurinn við Guðjón var runninn út og þegar farið var yfir hlutina var sú ákvörðun tekin um að ráða Ágúst í starfið. Hann hefur mjög mikla þekkingu á kvennakörfuknattleik og hefur m.a. þjálfað mikið af leikmönnum A-landsliðsins í yngri landsliðunum,” sagði Hannes sem ber miklar væntingar til kvennalandsliðsins.
,,Við sendum lið í fyrsta sinn til keppni á Evrópumótinu sem lauk nú síðasta haust og við væntum þess að vera að berjast á toppnum í B deildinni á næsta ári og eigum okkur þann draum um að sjá liðið í A deild á næstu árum,” sagði Hannes.
Eins og gefur að skilja er keppt í A deild og B deild í Evrópukeppninni í körfuknattleik og segir Hannes fyrirkomulagið vera mjög ósanngjarnt.
,,Það er mjög erfitt að komast upp úr B deildunum og upp í A deild sökum keppnisfyrirkomulagsins hjá FIBA Europe. Við myndum helst vilja hafa fyrirkomulagið eins og það er í fótboltanum þar sem allir fá tækifæri til þess að spila við alla. Eins og staðan er núna er ekki tækifæri fyrir okkur til þess að mæta sterkustu þjóðunum svo við eigum þann kost einan í stöðunni að berja okkur upp í A deild,” sagði Hannes en í A deildinni eru aðeins 24 bestu körfuboltaþjóðir álfunnar, allar hinar eru í B deildinni.
,,Það er erfitt að vinna sig upp á milli deilda, sama hvaða deild það er. Við erum að sjá sterkar þjóðir á borð við Finnland sem er mikil körfuboltaþjóð sem eru að vinna sig upp í A deild í fyrsta sinn eftir 8 ára veru í B deild en Finnar eru klárlega þjóð sem á heima í A deild. Þjóð eins og Georgía sem er mjög sterk í körfunni er enn í B deildinni. Þetta er mjög svo ósanngjarnt fyrirkomulag og þetta hjálpar okkur ekki til að koma á framfæri evrópskum körubolta hér heima eins og hann gerist bestur.”