spot_img
HomeFréttirHamid Dicko spilar sem Íslendingur

Hamid Dicko spilar sem Íslendingur

 Hamid Dicko fyrrum bakvörður Valsmanna og nú síðast liðsmaður ÍG í Grindavík hefur öðlast rétt á að spila í Dominosdeildinni sem Íslendingur. Þetta fékk kappinn staðfest í dag og því mun hann hefja leit að liði sem áhuga hefur á kröftum kappans.  Hamid setti niður 5 stig og sendi tæpar 3 stoðsendingar íí 19 leikjum með Val tímabilið 2011-2012. Síðan þá hefur kappinn spilað í Frakklandi í neðri deildum og svo með liði ÍG. 
 
Reglugerðin sem stuðst er við í þessu dæmi er frá þinginu sem haldið var 2013 og hljómar svona:
 
“Erlendur ríkisborgari sem hefur samkvæmt Þjóðskrá haft lögheimili á Íslandi samfellt í 3 ár telst ekki sem erlendur leikmaður í reglugerð þessari og skal hann framvísa nauðsynlegum gögnum til skrifstofu KKÍ. KKÍ staðfestir að hann teljist með íslenskum ríkisborgurum í þessari reglugerð. Sá sem hefur leiktíðina sem erlendur leikmaður telst sem slíkur út leiktíðina.”
 
Hamid kom til íslands Október 2011 og hefur því verið hér í þrjú ár en hann er unnusti Maríu Ben Erlingsdóttir leikmanns Grindavíkur. 
 
“Þetta kom í ljós í dag eftir mikla pappírsvinnu en Bryndís Gunnlaugsdóttir hefur verið að hjálpa mér við þetta. Næsta skref er að finna lið, ég hef ekki talað við nein lið eða heyrt í neinum því ég vissi svo sem ekkert hvort eða hvenær þettta myndi renna í gegn og ég vildi síður en svo vera að eyða mínum tíma eða tíma þjálfara liðanna í eitthvað sem yrði jafnvel ekki.” sagði Hamid í samtali við Karfan.is
 
En væri eitthvað draumalið sem hann myndi vilja spila fyrir á Íslandi? ” Grindavík yrði að vera efst á óskalistanum því hérna þekki ég alla og ég hef séð hvernig þeir koma fram við sína leikmenn. Það verður hinsvegar ekki því þjálfarinn þar hefur sagt mér að hann vilji gefa yngri strákum tækifæri ég virði það að fullu. KR eru náttúrulega meistarar og spila fanta góðan sóknarbolta sem mér líkar við. Hver myndi ekki vilja spila með meisturunum. Keflavík væri líka auðveldur kostur fyrir mig þar sem ég þekki þjálfarann þar vel og þekki til leikmanna. Annars breytir það svo sem litlu máli hvar ég spila, ég elska að spila körfubolta og það breytir engu í hvaða lit búningurinn er.  ” sagði Hamid að lokum. 
 
Hamid er fyrsti til að láta reyna á regluna þannig séð en hinsvegar hefur Nemanja Sovic spilað sem “íslendingur” á þessari reglu en hann hafði verið hér á landi í þó nokkur ár áður en reglan var sett. 
 
Fréttir
- Auglýsing -