18:18
{mosimage}
(Mynd úr safni: Hamarsliðið sótti tvö dýrmæt stig í Vesturbæinn í dag)
Önnur umferð í Iceland Express deild kvenna hófst í dag með þremur leikjum. KR tók á mót Hamar í Vesturbænum í skemmtilegum leik þar sem gestirnir höfðu óvænt góðan 11 stiga sigur, 65-76. Hamar leiddi mest allan leikinn og höfðu mest 14 stiga forskot á tímabili en KR var þó aldrei langt undan. Stigahæst hjá Hamar var La Kiste Barkus með 22 stig og 10 fráköst en næstar voru Julia Demirer með 20 stig og Fanney Lind Guðmundsdóttir með 10 stig. Hjá KR var Hildur Sigurðardóttir atkvæðamest með 24 stig en næstar voru Sigrún Ámundardóttir með 10 stig og Kristín Björk Jónsdóttir með 8 stig.
Bæði lið voru svolítinn tíma að koma sér í gang í sóknarleiknum í dag og KR stelpurnar höfðu aðeins skorað 2 stig þegar fyrst leikhluti var um það bil hálfnaður, 2-7. Þær höfðu þó fengið aragrúa af skotum en nýtingin var langt frá því að vera ásættanleg. Hamar hafði verið að spila fína vörn sem skilaði þeim því forskoti sem þær höfðu. KR náði þó góðu áhlaupi um leið og skotin fóru að detta og höfðu yfir 8-7. Hamar var hins vegar ekki á því að gefa forskotið eftir en þær voru að spila mjög skilvirkan sóknarleik sem skilaði þeim átta stiga forskoti þegar fyrsta leikhluta lauk, 14-22.
Hamar mættu mjög vel stemmdar inní annan leikhluta og skoruðu fyrstu 5 stigin gegn engu hjá KR og Jóhannes Árnarson sá ekki annan leik á borði en að taka leikhlé eftir aðeins 2 mínútur af leik. Varnarvinna Hamars virtist gera akkurat nóg til þess að trufla skot KR því þau fóru hreinlega ekki ofaní. Hildur Sigurðardóttir skoraði fyrstu stig KR í öðrum leikhluta af vítalínunni en þá var munurinn kominn upp í þrettán stig, 16-29. Það var ekki fyrr en Hildur Sigurðardóttir ákvað að taka hlutina í sínar hendur að munurinn fór að minnka en hún skoraði hvorki fleiri né færri en 12 stig í röð fyrir kr og var munurinn þá kominn niður í 5 stig, 26-31 og um það bil þrjár mínútur eftir af fyrri hálfleik. Lokamínúturnar voru virkilega góðar hjá KR og þær voru búnar að vinna upp 13 stiga forskot gestana og jöfnuðu þegar hálf mínúta var eftir af leikhlutanum. Julia Demirer átti hins vegar seinustu stigin áður en flautað var til hálfleiks og Hamar hafði því tveggja stiga forskot, 37-39.
Stigahæst í hálfleik hjá KR var Hildur Sigurðardóttir með 14 stig og 6 fráköst en næstar voru Sigrún Ámundardóttir með 9 stig og Brynhildur Jónsdóttir með 5 stig. Hjá Hamar var Julia Demirer stigahæst með 14 stig og 5 fráköst en næstar voru Kiste Barkus með 8 stig og Fanney Lind Guðmundsdóttir með 6 stig.
KR-ingar virtust vera komnar aftur í sömu grifjuna og þær voru í framan af fyrri hálfleik. Boltinn fór ekki ofaní og Hamar náði strax aftur þægilegu forskoti á upphafsmínútum þriðja leikhlutan. Þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður var munurinn aftur orðinn 10 stig, 43-53. KR beit þó frá sér þegar leið á leikhlutan og var munurinn kominn niður í eitt stig þegar um það bil mínúta var eftir. Kr var farið að spila mun aggressívari vörn sem skilaði áætluðum árangri. Hamar átti hins vegar seinasta orðið í leikhlutanum og höfðu 5 stiga forskot þegar honum lauk, 52-57.
Hamar mætti enn og aftur mun betur stemmdar í upphafi fjórða leikhluta og skoruðu 7 stig gegn einu stigi KR og höfðu náð aftur 11 stiga forskot, 53-64 þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Áhorfendur voru farnir að láta vel í sér heyra á þessum tímapunkti og spennan magnaðist með hverri mínútunni sem leið. Þegar þrjár mínútur voru efitr af leiknum höfðu gestirirnir ennþá nokkuð sannfærandi forskot og fór þar Kiste Barkus fremst í flokki en hún var gríðarlega sterk á lokamínútunum. Jóhannes Árnason tók leiklé þegar tvær mínútur voru eftir en þá var forskot gestana orðið 14 stig og greip KR þá til þess að pressa allan völlinn. Það dugði þó skammt því Hamar hafði á endanum góðan 11 stiga sigur, 65-76.
Umfjöllun: Gísli Ólafsson
Mynd: Suðurglugginn