,,Það er kannski fínt að vera búinn með þennan tapleik því þeir verða ekki fleiri hérna,“ sagði Gunnar Sverrisson þjálfari ÍR í samtali við Karfan.is eftir ósigur sinna manna gegn Njarðvík. ÍR vígði parketið sitt í Seljaskóla í kvöld og segja má að Njarðvíkingar hafi skemmt vígsluleikinn með því að taka stigin tvö, í það minnsta fyrir Breiðhyltingum.
Aðspurður hvort ÍR-ingar væru sáttir við nýja völlinn svaraði Gunnar: ,,Við erum allir ánægðir en höfum ekki æft mikið hérna því miður en það er engin afsökun. Í þessum leik eins og í þeim síðasta erum við að taka slæmar ákvarðanir í sendingum, með klaufalegar villur en ég hef samt fulla trú á strákunum þrátt fyrir tvo tapleiki í röð,“ sagði Gunnar sem fer á erfiðan útivöll í næstu umferð þó um nýliða KFÍ sé að ræða.
,,Það verður mikil áskorun að vinna þann leik, það er ekkert gaman að byrja tímabilið svona, áttum möguleika í Keflavík og enn meiri möguleika núna svo ég hef trú á því að við förum að við förum á skrið bráðum,“ sagði Gunnar og vogar sér ekki að vanmeta nýliða KFÍ.
,,Þeir unnu fyrsta leik á móti Tindastól og sýndu þar styrk sinn á heimavelli en við getum alveg verið með þessum efstu liðum ef við viljum en erum sjálfum okkur verstir. Við misstum t.d. leik kvöldsins klaufalega niður en það er enginn uppgjafartónn í okkur enda erum við í þessu til að vinna. Ég var mjög ánægður með varnarleikinn í kvöld en í fyrri hálfleik var sóknarleikurinn slakur og á heildina litið vantaði bara herslumuninn.“