,,Þetta er ógeðslega gaman, við erum að sýna þvílíkan karakter í því að koma svona til baka en aftur á móti erum við ekki búnir að gera neitt, við erum bara búnir að jafna,“ sagði vígreifur Gunnar Einarsson eftir 104-103 sigur Keflavíkur á KR í fjórða undanúrslitaleik liðanna í Iceland Express deild karla.
,,Það eru allir búnir að afskrifa Keflavík í allan vetur en við höfum trú á okkur sjálfum og málið er bara að Keflavík kemur alltaf aftur, það vita það allir. Það eru allir hræddir við okkur,“ sagði Gunnar en fyrir reynslubolta eins og hann, eru þá tvær framlengingar í jafn mörgum leikjum bara annar dagur á skrifstofunni?
,,Þetta er bara gaman, ég bjóst nú ekki við að þetta færi í framlengingu en víst svo var gerir það bara enn meira fyrir áhorfendur og þetta er rosalega gaman,“ sagði Gunnar en Keflavík er eina liðið sem unnið hefur seríu í úrslitakeppninni á Íslandi eftir að hafa lent 2-0 undir.
Ætlið þið að leika saman leikinn og gegn ÍR hér um árið?
,,Auðvitað erum við að fara að gera það, stefnan er sett á titilinn og við erum í þessu til að vinna,“ sagði Gunnar en hvað hefur breyst hjá Keflavík í síðustu tveimur leikjum frá fyrstu tveimur í seríunni?
,,Við erum bara búnir að leggja allt í sölurnar, búnir að koma og berjast þó svo KR komi með góð áhlaup á okkur þá hættum við ekki heldur höldum áfram og það er það sem hefur skilað okkur sigrum í síðstu tveimur leikjum,“ sagði Gunnar en við slepptum honum ekki lausum fyrr en hann hafði tjáð sig smávegis um komandi oddaleik.
,,Ég hlakka gríðarlega til.“