spot_img
HomeFréttirGulir fara vel nestaðir í Höllina

Gulir fara vel nestaðir í Höllina

Í leiknum í Röstinni í kvöld var hægt að sjá þvílíkan karakter en Grindvíkingum tókst að snúa blaðinu við eftir að hafa lent 16 stigum undir og unnu leikinn með 22 stigum 102:80 þegar botnlið ÍR heimsótti topplið Grindavíkur. Stórsigur hjá Íslandsmeisturum Grindavíkur sem fara betur nestaðir í Poweradebikarúrslitin en andstæðingar sínir í Stjörnunni sem lágu gegn Njarðvík í kvöld.?
 
Byrjunarlið Grindavíkur: Jóhann Árni Ólafsson, Aaron Broussard, Sammy Zeglinski, Þorleifur Ólafsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson
Byrjunarlið ÍR: Eric James Palm, Nemanja Sovic, D‘Andre Jordan Williams, Sveinbjörn Claessen og Hjalti Friðriksson.
 
Hörkuleikur átti sér stað í Röstinni í kvöld en Grindvíkingar mættu ekki tilbúnir til leiks. Þeir bjuggust líklega ekki við byrjun ÍR-inga og þar af leiðandi urðu þeir undir allan fyrri hálfleik. ÍR-ingar hófu leikinn og náðu að komast í 0:9. Lítið var þó skorað fyrstu mínútur leiksins og skoruðu Grindvíkingar  ekki fyrr en rúmar 3 mínútur voru búnar af leikhlutanum. Náðu ÍR-ingar 16 stiga forskoti og var staðan 11-27 ÍR í vil. Hvorki vörnin né sóknin var að gera sig hjá heimamönnum og nýttu ÍR-ingar það vel. ?
 
Grindvíkingar héldu áfram að elta og voru seinir í gang. Það var ekki fyrr en um miðjan 2. leikhluta þar sem Grindavík fór að banka á dyrnar hjá ÍR-ingum. Þeir náðu að skora 10 stig gegn 0 hjá ÍR á tveimur  mínútum um miðjan leikhlutann. Grindvíkingar voru samt ekki að spila sinn besta leik þrátt fyrir að hafa unnið leikhlutann 31:17. ÍR-ingar voru þó enn yfir þegar bjallan flautaði í hálfleik, staðan var 42-44 ÍR í vil. ?
 
Það var líkt og annað Grindavíkurlið hefði stigið fram eftir hálfleik. Þeim tókst að jafna þegar tvær mínútur voru búnar af þriðja leikhluta og tóku forustuna. ÍR-ingar drógust aftur úr og tókst Grindvíkingum að komast 14 stigum yfir. ÍR tapaði 5 boltum fyrstu fjórar mínútur leikhlutans. Grindvíkingar unnu leikhlutann 28:16 og endaði hann í 70:60 Grindavík í vil. ?
 
Fjórði leikhluti var auðveldur fyrir Grindvíkinga en ÍR náði aldrei inn í leikinn aftur og voru því lokatölur leiksins 102:80 Grindavík í vil. Grindvíkingar áttu stórkostlegar stoðsendingar og flottar körfur í seinni hálfleik og spiluðu skemmtilegan og hraðann bolta. Þegar tvær mínútur voru eftir reyndu Grindvíkingar við tvö ally-up en mistókust þau og var líkt og þeir væru farnir að leika sér að ÍR-ingum. ??Allt annað var að sjá Ólaf Ólafsson en hann virðist vera að komast á rétt ról. Hann spilaði rúmar 16 mínútur og skilaði 4 framlagsstigum. Hann var með 4 stig og 3 fráköst. Spilaði góða vörn og var að halda í við hraða leiksins. Sammy Zeglinski er að jafna sig eftir meiðsli á fæti sem hann varð fyrir í síðasta leik og spilaði hann einungis rúmar 20 mínútur. Hann hvíldi allan fjórða leikhluta en kom við sögu í hinum þremur. Grindvíkingar spiluðu á öllum sínum 12 leikmönnum og mætti bekkurinn tilbúinn til leiks.  ?
 
Fyrir Grindavík var Aaron Broussard stigahæstur með 22 stig eftir að hafa skorað einungis 6 þeirra í fyrri hálfleik. Hann tók 11 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Þrátt fyrir meiðslin skoraði Sammy Zeglinski 16 stig og var með 5 stoðsendingar. Ryan Pettinella kom mörgum á óvart en hann skoraði 11 stig og þar af 3 af 5 í vítum en hann var með 60% nýtingu þar. Jóhann Árni skilaði einnig 11 stigum. 11 leikmenn af 12 skiluðu stigum fyrir Grindavíkurliðið.?
 
D‘Andre Jordan Williams var sterkur fyrir lið ÍR-inga en hann var með 29 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar. Eric James Palm var með 14 stig. Sveinbjörn Claessen var með 13 stig og 7 fráköst og Hjalti Friðriksson skilaði 12 stigum. 
 
 
Umfjöllun/ Jenný Ósk
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -