14:00
{mosimage}
(Páll Axel Vilbergsson)
Viðbæturnar í Brenton Birmingham og Arnari Frey Jónssyni hafa gert Grindavík að einu sterkasta liði deildarinnar. Lengi vel í sumar var Grindavík það lið sem flestir spáðu Íslandsmeistaratitlinum en annað hljóð kom í búkinn þegar Jón Arnór og Jakob snéru heim til KR. Engu að síður eru Grindvíkingar gríðarlega sterkir og líklegt byrjunarlið ekki af verri endanum. Arnar Freyr Jónsson, Brenton Birmingham, Páll Axel Vilbergsson, Davíð Páll Hermannsson og Páll Kristinsson. Alls ekki ólíklegt byrjunarlið en það gæti reynst hvaða þjálfara sem er meira en handfylli að halda Þorleifi Ólafssyni utan byrjunarliðs enda Þorleifur mikill dugnaðarforkur.
Bæði Þorleifur Ólafsson og Helgi Jónas Guðfinnsson munu gera atlögu að byrjunarliði Grindavíkur og svo hefur Guðlaugur Eyjólfsson tekið fram skóna að nýju ásamt öldungnum Nökkva Má Jónssyni. Guðlaug þekkja margir af langdrægum skotflaugum en Nökkvi er meira þekktur fyrir að hamast í erlendum miðherjum og gera það með glæsibrag. Fróðlegt verður að sjá hvort íslenskir miðherjar hafi eitthvað í reynslu og fítónskraft Nökkva að gera í vetur. Nökkvi mun væntanlega koma inn af bekknum í örfáar mínútur í hverjum leik og gera einhverjum þreyttum andstæðingi mikla skráveifu.
Miðherjinn stæðilegi Morten Szmiedowicz hefur einnig dustað rykið af körfuboltaskónum en Morten gæti þurft einhvern tíma til að koma sér í leikform og þegar það kemur þá mun teigurinn hjá gulum verða illur viðureignar.
Vart þarf að kynna Pál Axel Vilbergsson til sögunnar en maðurinn er eins og rauðvín. Hann batnar með hverju árinu og mikið mun á honum mæða sem fyrr í Röstinni. Páll var framan af þekktur sem eitruð þriggja stiga skytta en hann hefur heldur betur bætt við sig snúningi í vörninni og þá hefur hann í stöðugt auknu mæli verið að skora í teignum.
Hér fá KR-ingar mikla og verðuga samkeppni og 12 ár eru liðin síðan Grindavík fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í fyrsta sinn.
Ritstjórn Karfan.is
{mosimage}
(Þorleifur Ólafsson)