Grétar Ingi Erlendsson stefnir á að snúa aftur til leiks í Domino´s-deild karla með Þór Þorlákshöfn sem fyrst og er að skjóta á janúarbyrjun strax á nýja árinu. Grétar hefur nýlokið við aðgerð vegna meiðsla þar sem brotið bein í öðrum fæti var fjarlægt.
„Ég fór í aðgerðina fyrir tveimur vikum og læt svo fjarlægja saumana á morgun og þá verður farið betur yfir stöðuna. Mér skilst að aðgerðin hafi gengið glimrandi vel. Beinið sem var brotið var fjarlægt og einhverjar lagfæringar gerðar þarna inni. Nú er bara að vona að þetta sé að gróa almennilega þannig að maður geti farið að taka þátt í þessu,“ sagði Grétar en Þór Þorlákshöfn er án Grétars í 4. sæti deildarinnar, hefur unnið þrjá af fimm leikjum sínum til þessa.
„Nú er ég svona að gæla við að vera aðeins fyrr en áætlað var í upphafi þannig að janúarbyrjun er markmiðið eins og er,“ sagði Grétar við Karfan.is í dag. En hvernig hefur honum litist á Þór Þorlákshöfn og frammistöðu þeirra í deildinni til þessa?
„Heldur betur búið að vera frábært að fylgjast með þeim og virkilega skemmtilegt að sjá framfarirnar hjá ungu strákunum. Það er nokkuð ljóst að þeir ætla að láta mann hafa fyrir því að vinna sig inn í hópinn.“