spot_img
HomeFréttirGooden og Thomas til Dallas

Gooden og Thomas til Dallas


10:44:18
Dallas Mavericks hafa bætt við sig tveimur leikmönnum fyrir átök komandi vetrar. Framherjarnir Drew Gooden  og Tim Thomas voru báðir samningslausir en munu væntanlega vera varamenn fyrir þá Dirk Nowitzki og Josh Howard, en auk þess getur Gooden leikið stöðu miðherja, sérstaklega þar sem ekki er mikið af sterkum miðherjum í Vesturdeildinni.

 

Gooden er afar fær leikmaður og getur þessvegna skorað 15 stig og tekið 10 fráköst ef hann leikur fullan leik, en krafta hans var ekki óskað í San Antonio þar sem hann lauk sínu síðasta samningsári eftir að hafa farið frá Chicago til Sacramento fyrr um veturinn.

 

Thomas er líka eins konar olnbogabarn sem fór liða á milli á síðasta ári, frá Clippers til New York og þaðan til Chicago. Hann var með um 9 stig og fjögur fráköst að meðaltali í fyrra og ætti að hafa eitthvað að bjóða Mavericks.

 

Nú er orðið frekar fámennt á leikmannamarkaðnum en þó eru tveir valinkunnir kappar sem hafa munað sinn fífil fegurri sem enn eru án liðs, þeir Stephon Marbury og Allen Iverson.

 

Iverson mun sennilega enda með einhverju af lægst skrifuðu liðum deildarinnar, en stórt spurningarmerki er sett við framtíð Marburys, sem náði ekki að sanna sig með Boston Celtics í vor. Hann er að verða að eins konar viðundri sem þarf sennilega að leita utan landssteinanna til að finna sér lið sem er tilbúið til að taka áhættuna á að fá hann til sín.

ÞJ

 

Myndir/nba.com

Fréttir
- Auglýsing -