Annar vináttulandsleikur kvennalandsliða Íslands og Danmerkur fer fram í Stykkihólmi í kvöld og hefst viðureignin kl. 19:15. Danir höfðu öruggan sigur gegn íslenska liðinu í gærkvöldi þegar liðin mættust að Ásvöllum í Hafnarfirði.
Íslenska liðið byrjaði vel í gær en Danir voru einráðir í síðari hálfleik. Íslenska liðið þarf að vera fljótt að skríða saman eftir kjöldráttinn í gær og koma betur saman sem lið, finna stemmninguna í vörninni en varnarleikurinn var í molum í gærkvöldi. Í raun gekk allt upp í gærkvöldi nema leikur liðsins, frábær stuðningur frá liðlega 400 manns sem mættu á leikinn og nýuppgerða gólfið í Schenkerhöllinni er eitt það flottasta á landinu.
Mikið var um að vera í Hafnarfirði í gær og framkvæmd leiksins og umgjörðin í öruggum höndum KKÍ og heimamanna í Hafnarfirði. U16 ára landslið kvenna var hyllt fyrir Norðurlandameistaratitil sinn og áhorfendur klöppuðu einnig U18 ára landsliðum Íslands lof í lófa en þau voru kvödd fyrir Evrópuverkefni sín sem framundan eru. Þá hlutu þrír aðilar silfurmerki KKÍ en þau voru Bylgja Sverrisdóttir, Karl Guðlaugsson og Gísli Guðlaugsson.
Poweradeskotið var á sínum stað og eins og áður segir, allt til alls nema neistinn í íslenska liðinu. Okkar konur fengu útreið í gærkvöldi en það sá hver maður að miklu meira býr í liðinu en það sýndi í gær, ryðið er farið af svo nú er lag að rétta stefnuna og launa frændum okkar Dönum lambið gráa.
Mynd/ [email protected]