10:31
{mosimage}
(Eiríkur Sigurðsson)
Stjörnumenn höfðu ærna ástæðu til þess að fagna í síðustu viku þegar liðið tryggði sér sinn fyrsta sigur í úrvalsdeild karla í körfuknattleik frá upphafi. Stjarnan hefur einu sinni áður leikið í efstu deild en það tímabil mátti félagið sætta sig við að tapa öllum sínum leikjum. Annarri umferð í Iceland Express deild karla lýkur í kvöld með tveimur leikjum þar sem Stjarnan freistar þess að ná í sinn fyrsta útisigur í úrvalsdeild.
Stjarnan lagði Skallagrím 85-72 í Ásgarði síðasta fimmtudag í fyrsta mótsleik Íslandsmótsins og komu þar með mörgum á óvart. Síðan Stjarnan tryggði sér sæti í Iceland Express deildinni hefur liðið tekið nokkrum breytingum en Eiríkur Sigurðsson er einn þeirra leikmanna sem gengið hefur í gegnum súrt og sætt með félaginu. Eiríkur er orðinn nokkuð góður af langvarandi meiðslum en síðustu þrjú ár hefur hann verið að glíma við beinhimnubólgu.
,,Þetta er allt í áttina hjá mér og ég er heill eins og er,” sagði Eiríkur sem var í byrjunarliði Stjörnunnar gegn Skallagrím. ,,Þessi meiðsli hafa verið viðloðandi hjá mér í einhver 2-3 ár en þegar líkami minn fór að taka við sér fyrir nokkru þá ákvað ég að fara að auka álagið aðeins. Þá hefur Gauti sjúkraþjálfari einnig hjálpað mér mikið,” sagði Eiríkur sem var vissulega í sjöunda himni með fyrsta sigur félagsins í efstu deild.
,,Það var bara snilld að byrja á sigri en við æfðum vel í sumar og þetta er að koma rosalega vel út hjá okkur. Engu að síður var þetta bara fyrsti leikurinn og næst er Fjölnir í kvöld en Fjölnir er eitt af þessum liðum sem á eftir að berjast um sæti í úrslitakeppninni. Ég hef tröllatrú á því að við getum unnið í kvöld og það væri ekki amalegt að landa fyrsta útisigri Stjörnunnar í úrvalsdeild,” sagði Eiríkur. Hann bætti því að Stjörnuliðið væri nú mun heilsteyptara en áður þar sem áherslan væri nú á liðsheildina en í gegnum tíðina hafi liðið jafnan einkennst af einstaklingsframtaki.
Fróðlegt verður að sjá hvort nýliðar Stjörnunnar geti haldið uppteknum hætti sem nýverið fengu Makedóna til liðsins sem líkast til mun auka breidd hópsins til muna. Leikur Fjölnis og Stjörnunnar hefst svo í Grafarvogi í kvöld kl. 19:15. Þá mætast svo Snæfell og Keflavík í Stykkishólmi á sama tíma.
Byggt á frétt úr Víkurfréttum í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi í gær.
www.vf.is og www.vikurfrettir.is
Mynd: [email protected]