spot_img
HomeFréttirFull ástæða fyrir bjartsýni gagnvart ágústmánuði

Full ástæða fyrir bjartsýni gagnvart ágústmánuði

A-landslið karla vann öruggan 83-59 á danska landsliðinu í íþróttahúsinu Ásgarði í Garðabæ í dag en danska liðið er í æfingaferð á Íslandi þessa daganna og spila liðin aftur á morgun en þá í Keflavík. Sigur íslenska liðsins var sannfærandi og greinilegt að hópurinn er til alls líklegur eftir frábæra frammistöðu á æfingamóti í Kína á dögunum. Jón Arnór Stefánsson var mættur aftur til leiks en hann ferðaðist ekki með liðinu til Kína vegna meiðsla. Darri Hilmarsson bættisti einnig við hópinn en þeir Ægir Þór Steinarsson (meiddur) og Jóhann Árni Ólafsson (veikindi) léku ekki með liðinu í dag.
 
Byrjunarliðið skipuðu þeir Hörður Axel, Haukur , Jón Arnór, Jakob og Hlynur en það hefur varla gerst áður að íslenska landsliðið hafi verið skipað þremur leikmönnum sem leika í sterkustu deildum Evrópu.
 
Gæðin voru ekki lengi að láta bera á sig varnarlega en íslenska liðið lék feiknagóðan varnarleik frá fyrstu mínútum sem gestirnir réðu illa við. Samvinna leikmanna var til fyrirmyndar og þrátt fyrir að skotin voru ekki að detta í sókninni þá náði íslenska liðið yfirhöndinni í byrjun. Hlynur Bæringsson sýndi fljótt hversu hann er megnugur og hreinilega pakkaði saman miðherjum danska liðsins sem áttu engin svör við krafti hans og áræðni. Greinilegt er að hann og Jakob finna sig vel í sóknarkerfi þjálfarans Peter Öqvist enda leika þeir hjá honum í Sundsvall. Íslenska liðið leiddi 18-14 eftir fyrsta leikhlutann en í lok hans átti Hörðu Axel tilþrif leiksins er hann braust inn í gegnum miðjuna og tróð með látum yfir leikmann danska liðsins og fékk víti að auki. Ísland bætti í öðrum leikhluta og komst mest í 32-20 en Danirnir kláruðu hálfleikinn á fínum spretti og staðan 35-32 í hálfleik.
 
Strákarnir komu vel stemmdir út í seinni hálfleikinn og foru félagarnir í Sundsvall fyrir íslenska liðinu í byrjun hálfleiksins. Hraðinn í leiknum varð mun meiri en íslenska liðið nýtti hvert tækifæri til að keyra í bakið á danska liðinu með góðum árangri. Haukur Helgi kveikti svo vel í stúkunni með tveimur troðslum á skömmum tíma og eftir þriggja stiga körfur frá Jakobi og Hauki var munurinn komin í 17 stig, 56-39. Íslenska liðið fór svo aðeins fram úr sér í hraðanum og eftir nokkrar illa ígrundaðar sóknir og körfur í andlitið náðu Danirnir að komast á flot á ný en staðan fyrir lokaleikhlutann 59-47.
 
Mikið var skorað á fyrstu mínútu fjórða leikhlutann og var staðan snögglega orðin 63-52. Þá setti íslenska liðið aftur í varnargírinn og afgreiddi leikinn með 15-0 áhlaupi og komust þar með í 78-52. Liðið sigldi sigrinum svo örugglega í höfn, 83-59.
 
Íslenska liðið spilaði vel megnið af leiknum og er gaman að sjá hversu rútíneraður leikur liðsins er orðinn á báðum endum vallarins. Hraðinn í sóknarleiknum er mun meiri heldur en náðist upp síðastliðið haust og greinilegt að tilkoma Harðar Axels styrkir lið varnarlega. Bestu leikmaður íslenska liðsins í dag voru þeir Haukur Helgi (24 stig og 7 fráköst) og Hlynur (19 og 10) en ekki langt á eftir var Jakob (18 stig og 7 stoðsendingar). Haukur Helgi virðist í fantaformi og sýndi hann í dag hvers vegna hann er að spila í ACB deildinni á Spáni. Þá átti Pavel flottan leik með 5 stig, 6 fráköst, 4 stoðsendingr og 5 stolna bolta. Ánægjulegast var hins vegar að sjá framfarnir á risanum geðþekka, Ragnar Nat, en hann hefur bætt leikinn sinn mikið og sýndi prýðistilþrfi í leiknum í dag og endaði með 10 stig og 5 fráköst. Það verður íslenska landsliðinu afskaplega dýrmætt í framtíðinni að geta teflt fram leikmanni vel á þriðja metrann. Jón Arnór virkaði ryðgaður í kvöld eftir meiðslin en þrátt fyrir að setja ekki mark sitt á stigaskor liðsins gerði hann margt gott sem sást best að leikur liðsins var uppá sitt besta með hann á vellinum.
 
Miðað við gengi liðsins að undanförnu og frammistöðuna í leiknum í dag er fullástæða til bjartsýnni fyrir umspilsleiki Evrópumótsins gegn Búlgörum og Rúmenum í ágúst.
 
Mynd/ SÖA
 
  
Fréttir
- Auglýsing -