FSu tók á móti Skallagrím í 1. deild karla í gærkvöldi og gestrisnin var ekki ýkja mikil þar sem FSu skellti Borgnesingum 87-70. Skallagrímsmenn teldu fram nýjum leikmanni í gærkvöldi sem heitir Mateusz Sowa en hann lék með KFÍ fyrir áramót á síðasta tímabili.
,,Sowa var fenginn til að aðstoða okkur undir körfunni og sérstaklega í fráköstum sem hefur verið okkar veikasti hlekkur hingað til sbr. leikinn á móti Þór Akureyri þar sem við vorum drepnir í þeirri baráttu,” sagði Pálmi Sævarsson þjálfari Borgnesinga við Karfan.is í gær.
Í gærkvöldi vann Skallagrímur frákastabaráttuna þar sem Sowa gerði 10 stig og tók 9 fráköst í sínum fyrsta leik á tímabilinu en FSu hirti stigin tvö sem í boði voru.
Richard Field var að venju stigahæstur í liði FSu með 29 stig og 13 fráköst og Valur Orri Valsson bætti við 20 stigum og 4 stoðsendingum. Hjá Skallagrím var Darrell Flake atkvæðamestur með 19 stig og 11 fráköst.
Ljósmynd/ Úr safni: Valur Orri á NM 2010 með íslenska U16 ára landsliðinu. Valur og Richard Field eru lykilmenn FSu í 1. deildinni.