{mosimage}
(Friðrik með silfur um hálsinn, vonbrigðin leyndu sér ekki)
Í ár telfdu Grindvíkingar fram gríðarsterku liði og ljóst var að þeir yrðu í baráttu um alla titla. Gulir mega þó bíta í það súra epli að hafa tapað gegn KR í Poweradebikarnum, í undanúrslitum í Subwaybikarnum og nú síðast í kvöld á Íslandsmótinu. Barátta þessara tveggja mögnuðu liða var af epískum toga og var boðið upp á hvern stórleikinn á fætur öðrum. KR er þó Íslandsmeistari og skiljanlega var Friðrik Pétur Ragnarsson þjálfari Grindvíkinga súr í broti er Karfan.is náði tali af honum í leikslok þar sem Grindavík lá 84-83 í oddaleiknum.
,,Við töpuðum hérna leiknum í síðustu sókn á móti KR svo það er ekki eins og eitthvað hafi farið úrskeiðis, heppnin var bara ekki með okkur en þú þarft pínulitla lukku til að vinna svona leiki. Við vorum rosalega nálægt þessu, bara eitt skot að detta og þá værum við Íslandsmeistarar en það er rosalega stutt þarna á milli og við bara kláruðum þetta ekki nægilega vel,“ sagði Friðrik sem sagði það ekkert launungarmál í Grindavík að þar á bæ ætluðu menn sér titilinn í ár.
,,Þetta eru ákveðin vonbrigði, ég neita því ekki. Tala nú ekki um að vera svona nálægt því á heimavelli og geta klárað þar í leik fjögur, það út af fyrir sig eru einnig gríðarleg vonbrigði,“ sagði Friðrik en finnst honum tímabilið hjá Grindavík í heild sinni vera vonbrigði?
,,Ég á bara eftir að setjast niður og vega það og meta. Það voru mörg góð lið um hituna í vetur en KR er náttúrulega með hörkulið og í sjálfu sér erum við ekkert endilega betur mannaðir en þeir. En ég hef samt aldrei farið í gegnum tímabil þar sem ég næ ekki í titil og verð ekki fyrir vonbrigðum,“ sagði Friðrik en verður hann áfram við stjórnartaumana í Röstinni?
,,Núna sest ég niður með stjórninni í Grindavík og sé hvort þeir vilji hafa mig áfram og hvernig verður með leikmannamálin og annað,“ sagði Friðrik Pétur Ragnarsson þjálfari silfurliðs Grindavíkur leiktíðina 2008-2009 í Iceland Express deild karla.