spot_img
HomeFréttirFriðrik Anton stimplaði sig inn í góðum Stjörnusigri

Friðrik Anton stimplaði sig inn í góðum Stjörnusigri

14. umferð Subway-deildarinnar rúllaði af stað í kvöld í Umhyggjuhöllinni góðu er heimamenn fengu Breiðhyltinga í heimsókn. Stjarnan er frekar lágt á lofti, situr í 8. sætinu fyrir leiki umferðarinnar með 10 stig en Stjörnumenn hljóta að horfa upp á við. Stjörnuliðið hefur tekið umtalsverður breytingum að undanförnu, mögulega til góðs, en meiðsli hrjá nú liðið í ofanálag þar sem Júlli og Tommi eru frá. Einnig er nýi Kaninn ekki enn kominn með leikheimild.

ÍR-liðið hefur þurft að sætta sig við botnbaráttu hingað til á leiktíðinni en ævintýrin gera svo sem ekki alltaf boð á undan sér. Liðið hefur fengið sinn skerf af meiðslum en eru nú fullskipaðir, Sigvaldi loksins kominn á gólfið og Massarelli jafnvel farinn að hitta úr skotum! Það er lag núna fyrir gestina að hirða stigin af vængbrotnum heimamönnum.

Kúlan: Í Kúlunni góðu sjást stjörnuhröp í bunkum…sem þýðir að ÍR-ingar fara illa með heimamenn og sigra örugglega, 79-93. Klén myndhverfing í meira lagi, en góðar fréttir fyrir Stjörnuna því Kúlan hefur nánast aldrei rétt fyrir sér…

Byrjunarlið

Stjarnan: Gutenius, Hlynur, Dagur, Darbo, Addú

ÍR: Taylor, Sigvaldi, Raggi, Massarelli, Paasoja

Gangur leiksins

Stjörnumenn byrjuðu betur í kvöld og settu fyrstu 7 stigin. Raggi Braga kom sínum mönnum á bragðið með þristi og Taylor jafnaði svo leikinn í 15-15 með stórkarlatroðslu. Hákon kom inn af ÍR-bekknum með látum og kom gestunum yfir í kjölfarið. Að fyrsta leikhluta loknum leiddu Breiðhyltingar 22-25.

Annar leikhlutinn var skólabókardæmi um gagnsemi leikhléa! Heimamenn leiddu 30-27 þegar rúmar 3 mínútur voru liðnar af fjórðungnum og Wiium blés til leikhlés. Það hafði góð áhrif og um miðjan leikhlutann svaraði Ingi með leikhléi enda staðan orðin 30-35 ÍR í vil! Það skilaði 13-3 spretti, staðan 43-38, 3 mínútur rúmar til leikhlés og aftur tók Wiium leikhlé. Að endingu leiddu Stjörnumenn 49-48 í hléi, skótegundinni framar.

Liðin skiptust áfram á höggum í þriðja leikhluta og kom höggið fyrst frá heimamönnum sem tókst að hlaða í 10 stiga múrinn góða og leiddu 60-50. Gestirnir svöruðu enn og aftur, nú með 10 stigum í röð og Massarelli jafnaði með þristi í 60-60 þegar tæpar 3 lifðu af þriðja leikhluta. FG-ingurinn snjalli Friðrik Anton Jónsson tók þá til sinna ráða, setti 5 snögg stig, hámaði í sig sóknarfráköst ítrekað og henti í stoðsendingu á Gutenius sem smellti þristi. Eftir annan slíkan var staðan 73-64 að leikhlutanum loknum og smá púði að myndast fyrir Stjörnuna.

Eins og leikurinn hafði þróast mátti alveg búast við svörum enn og aftur frá gestunum en fyrir hlutlausa áhorfendur urðu lokamínúturnar því miður ekki spennandi. Heimamenn héldu forystunni út leikinn, næst komust ÍR-ingar Garðbæingum um miðjan leikhlutann eftir þrist frá Massarelli,77-71, og enn tæpar 5 mínútur eftir. Darbo svaraði með vörumerki sínu, millifæristvisti, og það fór svo vel á því að Friðrik Anton hrakti vonir gestanna endanlega á brott með þristi þegar um 3 mínútur voru eftir og staðan 84-71. Kristján Fannar setti í framhaldinu einn varanagla í kistuna með flottum þristi og úrslitin endanlega ráðin. Lokatölur 94-76 en þær gefa kannski ekki alveg rétta mynd af leiknum.

Menn leiksins

Gutenius spilaði mjög vel í kvöld, setti 26 stig og tók 15 fráköst. Þrátt fyrir það verður að útnefna Friðrik Anton sem mann leiksins, hann kom inn af bekknum og skilaði 16 stigum í örfáum skotum og tók 10 fráköst. Afar jákvæðar fréttir fyrir Stjörnumenn.

Hákon var atkvæðamestur gestanna með 22 stig en 18 þeirra komu í fyrri hálfleik. Massarelli virðist aðeins vera að vakna til lífsins og setti 17 stig.

Kjarninn

Breytingarnar sem hafa verið gerðar á Stjörnuliðinu virðast vera til góðs, leyfi ég mér að segja jafnvel þó nýi Kaninn sé ekki enn búinn að spila leik! Tommi og Júlli koma svo aftur inn í þetta vonandi sem fyrst fyrir Stjörnuna og aldrei að vita hvað gerist. Það er ekki of seint að hefja sig til flugs og eins og frasinn segir verður enginn Íslandsmeistari í janúar. Toppa Stjörnumenn á réttum tíma og verða spútnikliðið í ár?

Það er ansi dauft yfir Breiðholtinu þessar vikurnar. Í stuttu spjalli við Ísak Wiium eftir leik kallaði hann eftir sterkari karakter hjá sínum mönnum og hafði á orði að sóknarleikurinn væri höfuðverkurinn. Það er eins og það vanti einhvern liðsbrag á þetta hjá ÍR-ingum, það er nóg af góðum leikmönnum í hópnum en púslin vilja ekki renna saman í nægilega góða heildarmynd. Eins og staðan er núna blasir aðeins fallbaráttan við liðinu, en við spyrjum að leikslokum.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -