Bikarmeistarar Stjörnunnar jöfnuðu í kvöld einvígi sitt gegn Snæfell í undanúrlsitum Domino´s deildar karla. Staðan er nú 1-1 eftir annan spennuslag millum liðanna. Justin Shouse fór fyrir Garðbæingum í kvöld og gerði 31 stig í 90-86 sigri Stjörnunnar. Jay Threatt leikstjórnandi Snæfells lék ekki með sínum mönnum síðustu sex mínútur leiksins eða svo en hann kenndi sér eymsla í fæti, hver staðan á honum er skýrist von bráðar. Garðbæingar unnu frákastabaráttuna í kvöld, 51-41, og þar af voru 21 sóknarfrákast en sú barátta var þeim þung í fyrstu viðureign liðanna þar sem bláum tókst ekki að taka eitt einasta sóknarfrákast. Hólmarar voru ófeimnir við að skjóta þristum og hefðu betur ráðist meir að körfunni en heimamenn voru þéttir í teignum að þessu sinni.
Rétt eins og í Stykkishólmi í fyrsta leik liðanna var mikið skorað í upphafs leikhlutanum. Hólmarar leiddu 8-9 eftir þriggja mínútna leik og flest virtist nú vilja niður hjá báðum liðum. Jón Ólafur fór fyrir gestunum og skoraði sitt sjöunda stig er hann kom Snæfell í 12-15 með þrist en Hólmarar voru með 50% þriggja stiga nýtingu í fyrsta leikhluta, 4 af 8 á meðan heimamenn settu aðeins einn af sex tilraunum. Staðan var þó engu að síður jöfn, 24-24, að loknum fyrsta leikhluta og Stjörnumönnum tókst í fyrsta leikhluta það sem þeir afrekuðu ekki í Stykkishólmi á 40 mínútum, að taka sóknarfrákast…og það tvö.
Heimamenn í Garðabæ hefðu þó getað leitt 26-24 eftir fyrstu tíu mínúturnar þar sem Marvin Valdimarssyni tókst að ná sóknarfrákasti eftir lokaskot og blaka boltanum ofan í. Fyrst var karfan dæmd gild en dómarar leiksins, eins og reglur heimila þeim, ruku þá til Svala Björgvinssonar og Guðjóns Guðmundssonar sem voru að lýsa leiknum fyrir Stöð 2 Sport og fengu úr því skorið að karfan hafi ekki verið gild og því jafnt 24-24 og nokkuð víst að bæði lið þurftu að þétta varnarleikinn eftir líflegar og opnar upphafsmínútur.
Þegar seig á annan leikhluta hrukku Stjörnumenn í gang, varnarleikur blárra reyndist Hólmurum erfiður og þeir félagar Mills og Shouse komu með níu stiga rispu í þriggja stiga körfum fyrir Garðbæinga og breyttu stöðunni í 39-31. Snæfellingar sættu sig við nokkuð af erfiðum skotum og stóru mennirnir Ólafur og Amoroso voru að þvælast úti við þriggja stiga línu og bjóða upp á skot sem mátti þakka fyrir að hittu spjaldið. Heimamenn í Garðabæ nýttu sér vel að Hólmarar voru hálf ragir við að sækja á körfuna og juku muninn í 45-36 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Justin Shouse var kominn með 22 stig í hálfleik hjá Garðbæingum og 4 stoðsendingar og næstur honum var Brian Mills með 9 stig og 10 fráköst. Jón Ólafur var atkvæðamestur í liði Snæfellinga með 10 stig og Sveinn Arnar sem kom sterkur af tréverki gestanna inn í fyrri hálfleikinn var með 7 stig en rauðir gestirnir voru komnir með Threatt í villuvandræði eftir fyrstu 20 mínúturnar með 3 slíkar.
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Stjarnan: Tveggja 58,3% – þriggja 33,3% og víti 45,4% (5-11 eða afleit vítanýting eins og sagt er)
Snæfell: Tveggja 36,8% – þriggja 40% og víti 44,4% (4-9 eða afleit vítanýting)
Hólmarar komu ákafir út úr búningsklefum og buðu upp á tvo þrista og tókst þeim að lokum að jafna 57-57 en þar var Pálmi Freyr að verki fyrir gestina. Þó Sigurður Þorvaldsson hafi verið skítkaldur í liði Snæfells í kvöld fór Snæfell illa með Stjörnuvörnina í þriðja leikhluta og unnu hann 27-19. Munaði um minna í liði heimamanna að Justin Shouse sem átti stórgóðan fyrri hálfleik sló ekki taktinn í þriðja hluta en hann rankaði við sér í þeim fjórða. Staðan jöfn, 64-64 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Sigurður Þorvaldsson hristi af sér slyðruorðið í fjórða leikhluta og gerði fjögur stig í röð fyrir gestina en heimamenn svöruðu því með löðrung er Shouse jók muninn í 82-69 með þriggja stiga körfu. Á þessum tímapunkti var Snæfell að missa Threatt af velli vegna meiðsla og kláruðu gestirnir leikinn án hans. Stjarnan refsaði gestunum fyrir örstuttan einbeitingarskort í vörninni í fjórða leikhluta og tryggðu sér þannig sigurinn, lokatölur 90-86 og því alls fimm stig á milli liðanna á 80 mínútum, magnað einvígi í gangi!
Shouse gerði 31 stig og gaf 6 stoðsendingar í liði Stjörnunnar í kvöld, Marvin Valdimarsson splæsti í dýra tvennu með 17 stig og 10 fráköst og þeir Mills og Frye voru báðir með 13 stig og Mills 15 fráköst að auki. Jón Ólafur gerði 21 stig í liði Snæfells í kvöld og Pálmi bætti við 16. Amoroso var með tvennu, 12 stig og 17 fráköst og Threatt með 13 stig og 7 stoðsendingar þegar hann kvaddi völlinn kvalinn í fæti.
Þriðji leikur liðanna fer fram í Stykkishólmi á mánudag en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sig inn í úrslitarimmu Íslandsmótsins.
Byrjunarliðin:
Stjarnan: Justin Shouse, Marvin Valdimarsson, Jarrid Frye, Brian Mills og Fannar Helgason.
Snæfell: Jay Threatt, Pálmi F. Sigurgeirsson, Jón Ólafur Jónsson, Sigurður Þorvaldsson og Ryan Amoroso.
Umfjöllun/ [email protected] – [email protected]