Leikmaður Hauka Finnur Atli Magnússon gaf það út á dögunum að hann myndi ekki fylgja deildarmeisturum Hauka upp í Subway deildina á komandi tímabili og að þetta tímabil yrði hans síðasta. Það þýðir að leikur kvöldsins gegn Hetti verður hans síðasti í meistaraflokki, en Haukar hafa tryggt sig upp í gegnum efsta sæti deildarinnar og þurfa því ekki að fara í neina úrslitakeppni.
Hér fyrir neðan má sjá færslu Hauka á samfélagsmiðlum þar sem leikmanninum er þakkað fyrir framlag sitt. Finnur er að upplagi úr KR og ásamt því að hafa unnið Íslandsmeistaratitla þar vann hann einnig einn deildarmeistaratitil með Haukum. Ásamt KR og Haukum lék hann einnig fyrir Snæfell og Val í úrvalsdeild, Catawba í bandaríska háskólaboltanum og 19 leiki fyrir A landslið Íslands.
Karfan vill nota tækifærið og hrósa honum fyrir góðan feril og óska honum velfarnaðar í því sem að hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.