8:09
{mosimage}
Fimm íslenskir leikmenn skrifuðu undir hjá Snæfelli í gærkvöld fyrir næsta tímabil. Tveir þeirra eru Hólminum vel kunnir en það eru Pálmi Freyr Sigurgeirsson sem kemur frá Íslandsmeisturum KR og Sveinn Arnar Davíðsson, sem er uppalinn Snæfellingur, kemur frá Skallagrím og var valinn leikmaður ársins hjá þeim síðasta tímabil og var með 11.5 stig að meðaltali í leik. Pálmi Freyr spilaði með Snæfelli tímabilin 1999-2000 með 11.4 stig að meðaltali og svo 2004-2005 með 10.8 stig að meðaltali.
Hinir tveir sem skrifuðu undir hjá mfl karla eru ungir og sprækir strákar þeir Emil Þór Jóhannsson 21 árs sem kemur frá Breiðablik og Páll Fannar Helgason 20 ára sem kemur frá KR. Emil var með 6 stig að meðaltali í leik síðasta tímabil og átti einmitt 24 stiga stórleik gegn Snæfelli í seinni leik liðanna. Páll Fannar er reynslunni ríkari eftir tímabil með Íslandsmeisturum KR þar sem hann kom við sögu í 5 leikjum en var einnig á fullu með unglingaflokk KR og var einn lykilmanna þar.
Hjá meistaraflokki kvenna skrifaði svo Rósa Indriðadóttir undir og kemur hún í Hólminn úr Skallagrím með kærasta sínum Sveini Arnari. Rósa var jafnframt valin leikmaður ársins hjá kvennaliði Skallagríms. Aðrar fréttir úr herbúðum Snæfells er að Kristen Green er að byrja að pakka niður og bíður spennt eftir að koma aftur og ráðnir hafa verið aðstoðaþjálfarar Inga Þórs. Hjá mfl. karla verður Hlynur Bæringsson honum hægri hönd en Baldur Þorleifsson verður aðstoðarþjálfari kvennaliðsins.
Greinilega heilmikið að gerast í Hólminum þessa daga og buðu Snæfellingar þetta úrvals körfuknattleiksfólk velkomið með góðum móttökum í gærkvöld.
Símon B. Hjaltalín