Jólarauðar Haukastúlkur mættu galvaskar í snjóhvíta DHL-höllina í kvöld. Fyrirliggjandi var að sýna vaxandi KR-ingum í tvo heimana og halda svo heim í Hafnarfjörðinn með tvö stig í farteskinu. Erfitt var að spá um þennan leik þar sem bæði lið höfðu verið á töluverðri siglingu undanfarið. Haukar unnið 4 leiki í röð og sátu fyrir þennan leik í 2.-3.sæti en KR-ingar unnið 2 leiki í röð og sýnt mikla baráttu og stíganda í sínum leik.
Leikurinn byrjaði á frekar rólegu nótunum og konur ekkert að æsa sig. Silkimjúk svæðisvörn var í gangi og áttu bæði lið í erfiðleikum með að skora. Um miðbik leikhlutans hefur þjálfari KR sennilegast áttað sig á því að hann var að svæfa áhorfendur með þessum hægagangi og skiptir yfir í maður á mann og fara þá leikar að æsast. Bæði lið spiluðu nú grimma vörn en þó Haukastúlkur aðeins fastar að mati dómara og komst KR í bónus þegar 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum. Voru þá KR-konur einungis búnar að skora 4 stig er hér var komið við sögu. Segja má að leikurinn hafi byrjað fyrir alvöru á þessum tímapunkti. Þóra Kristín smellir þarna snöggum þristi og þá á Sara Mjöll góða innkomu fyrir KR og svarar með þriggja alveg ísköld. Skiptast liðin á að skora og kaflaskiptur 1.leikhluti klárast 12-14 Haukum í vil. Öllum að óvörum leiðir Hardy Haukana í stigaskorinu en KR-konur skipta þessu meira systurlega á milli sín, Sara, Simone, Helga og Bergþóra allar með 3 stig.
2.leikhluti rúllar vel af stað og KR orðnar kunnuglegri í sínum varnarleik, barátta og læti. Þó var það öllum ljóst sem á horfðu að erlendur leikmaður KR, Simone nokkur Holmes var ekki að nenna að vinna sína varnarvinnu og kom það illa við KR, sér í lagi þar sem erlendur leikmaður Hauka hin ógnarsterka Lele Hardy var að sýna allar sínar bestu hliðar. Glöggur þjálfari KR tók eftir þessu líka og kippti Simone út af. Bæði lið voru að spila vel á þessum tíma og reyndu Haukastúlkur sem mest þær máttu að slíta sig frá KR en þær svarthvítu sýndu baráttu og héldu þessu í járnum. Lele hélt að sjálfsögðu áfram að salla niður fyrir Hauka og Sólrún Inga átti góða innkomu fyrir Hauka sem og Anna María fyrir KR. Staðan í hálfleik 30-35 og allt útlit fyrir spennandi seinni hálfleik.
KR byrjar seinni hálfleikinn með miklum látum og pressu um allan völl og eru virkilega að gefa Haukastúlkum leik sem og áhorfendum eitthvað fyrir peninginn. Kraftur þessi skilar því að KR-konur komast yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar 4 mínútur eru eftir af leikhlutanum 43-42 og ekkert sem bendir til annars en að KR eigi séns á að taka þetta. Eeeeen þá gerist nokkuð sem mætti kalla vendipunktinn í leiknum, þáttaskil, “turning point”. KR er einu yfir, Haukar fara í sókn, sem er svo við það að renna í sandinn og skotklukkan út sömuleiðis. Hardy fer í örvæntingarfullt þriggja stiga skot, hittir og það er brotið á henni svo hún fær víti að auki, sem hún að sjálfsögðu nýtir. Við þetta má segja að sjálfstrausti KR-kvenna hafi verið blásið á haf út og til baka aftur í segl Haukanna sem kláruðu leikhlutann með 9-2 áhlaupi breyttu stöðunni í 45-52.
Lokaleikhlutinn var svo framhald af því hvernig 3.leikhlutinn endaði. KR-ingar virtust hafa misst trúna og Haukastúlkur ganga á lagið með hina stórgóðu Hardy í broddi fylkingar og klára leikinn með 14 stiga mun 58-72.
Flottur leikur hjá báðum liðum að mestu og verður að gefa KR-ingum “kredit” fyrir að standa svona vel í sterku Haukaliði verandi með kana sem varla nennir að spila körfubolta. Án þess að hafa fyrir þvi nokkra vissu þá kæmi það undirrituðum á óvart ef Simone myndi reka aftur á Íslands strendur eftir jólafrí. Hvað sem því líður þá unnu Haukar verðskuldað sinn fimmta deildarsigur í röð og Lele Hardy maður leiksins með 34 stig og 25 fráköst.
Umfjöllun/ Þorbjörn Geir Ólafsson