spot_img
HomeÚti í heimiEuroleagueFenerbache stöðvaði öskubuskuævintýrið og er á leið í úrslit

Fenerbache stöðvaði öskubuskuævintýrið og er á leið í úrslit

Fyrri undanúrslitaleik Euroleague er lokið þar sem Fenerbache sigraði Zalgiris Kaunas í frábærum leik. 

 

Fjórða árið í röð er Fenerbache í undanúrslitum Euroleague en liðið varð auðvitað meistari á síðasta tímabili. Það var nokkuð ljóst að reynslan var með liðinu í leik dagsins en tyrkirnir náðu forystu fljótt og gáfu hana lítið eftir. Zalgiris Kaunas tókst hinsvegar að setja saman nokkur áhlaup til að hleypa leiknum í spennu. 

 

Á endanum var það einfaldlega of lítið því ógnarsterkt lið Fenerbache hafði sigur 76-67. Varnarleikur Fenerbache er algjörlega magnaður og er erfitt að sjá eitthvað lið standast þeim snúninginn í úrslitaleiknum. Ali Muhammed tókst heldur betur að nýta fáar (11) mínútur sínar vel en hann var með 19 stig og þar af 12 í síðasta leikhluta. Þar fyrir utan var ítalinn Luigi Datome mjög góður. 

 

Þar með er öskubuskuævintýri Zalgiris Kaunas lokið en liðið hefur komið öllum á óvart á tímabilinu að ná svona langt. Liðinu var spáð 12 sæti deildarinnar fyrir tímabilið og því magnað að liðið hafi komist í undanúrslit. Kevin Pangos var að vanda mjög sterkur en hann hefur verið orðaður við NBA lið síðustu vikurnar.

 

Fenerbache mætir því annað hvort Real Madrid eða CSKA Moskvu í úrslitaleiknum á sunnudag. Undanúrslitaleikur Real Madrid og CSKA fer fram kl 20:00 í kvöld. 

 

Fréttir
- Auglýsing -