Vorið 2008 kom hópur af leikmönnum úr miðskóla (high school) frá Bandaríkjunum til Íslands og var þessi hópur við æfingar og leik m.a. í Borgarnesi. Hópurinn var undir handleiðslu troðslumeistarans Darryl Dawkins og kom að áeggjan Ken Webb sem var að þjálfa Skallagrím þá. Með í för var Kyrie nokkur Irving, sem nú þykir einhver feitasti bitinn í nýliðavali NBA deildarinnar sem nálgast óðfluga.
Á heimasíðu NBA hafa verið birt tvö mismunandi ,,mock-draft“ þar sem spekingar raða upp nýliðavalinu og í báðum þessum uppsetningum er Kyrie Irving efstur á blaði. Eins og Karfan.is hefur þegar greint frá þykir líklegt að Cleveland Cavaliers velji kappann fyrstan.
Eftir að bandaríska liðið hafði varið smá tíma í Borgarnesi og m.a. leikið gegn heimamönnum var röðin komin að því að mæta U18 ára landsliði Íslands í Grafarvogi. Leikurinn var gríðarlega jafn og spennandi en svo fór að Ísland hafði sigur 114-112 eftir framlengingu. Kyrie Irving skoraði 52 stig í leiknum en í íslensku bakvarðasveitinni mátti m.a. finna Ægi Þór Steinarsson, Fjölni, og Baldur Ragnarsson, Þór Þorlákshöfn svo einhverjir séu nefndir.
Við grípum niður í stigaupptalninguna úr grein sem Gísli Ólafsson ritaði fyrir Karfan.is frá leik U18 ára liðsins gegn bandarísku gestunum:
Stigahæstir hjá íslenska liðinu voru Ólafur Ólafsson, UMFG, með 23 stig, Sigfús J. Árnason, Keflavík, með 19 stig og Ægir Þór Steinarsson, Fjölni, með 15 stig. Hjá gestunum var leikmaður númer 8, Kyrie, algjör yfirburðaleikmaður en hann skoraði 52 stig í leiknum og var algjörlega óstöðvandi. Næstir voru Chris Compas með 18 stig og John með 14 stig.
Og við höldum áfram úr grein Gísla, niðurlagið var á dramatísku nótunum:
Eftir einstaklega léleg mistök dómara um hvaða lið ætti að skora á hvaða körfu og nokkurra mínúta rökræður um það hófst framlengingin og íslensku strákarnir mættu af krafti, þeir stálu boltanum tvisvar í röð og í seinna skiptið tróð Ólafur boltanum af krafti við mikinn fögnuð liðsfélaganna. Ísland hafði því tekið fjögurra stiga forskot strax í upphafi. Þegar þrjár mínútur voru hins vegar liðnar af framlengingunni höfðu gestirnir jafnað leikinn aftur, 110-110. Það var aftur jafnt á öllum tölum, 112-112, þegar þrjátíu sekúndur voru eftir af leiknum. Íslenska liðið átti þá boltann og Víkingur Sindri Ólafsson, KR, tók af skarið og fór á línuna fyrir vikið. Hann nýtti bæði vítin og gestirnir fengu því lokasekúndurnar til að jafna sem tókst ekki þrátt fyrir góða tilraun Kyrie. Lið Íslands vann því baráttusigur, 114-112 og fögnuðu vel í lok leiks.
Myndir/ Snorri Örn Arnaldsson