spot_img
HomeFréttirFannar: Með blóðkúlu á við handbolta á lærinu

Fannar: Með blóðkúlu á við handbolta á lærinu

 
,,Þetta eru verkamannameiðsl! Ég var fyrir austan að hjálpa pabba með sónun á merum og fékk að finna fyrir því. Ein merin sparkaði illa í lærið á mér og sprengdi æðar þannig að ég er núna með blóðkúlu á við handbolta á innanverðu lærinu,“ sagði Fannar Ólafsson leikmaður KR í samtali við Karfan.is. 
KR miðherjinn hefur ekki farið varhluta af meiðslum á sínum ferli og margoft hefur Fannar leikið meiddur í gegnum sársaukann. ,,Eðlilega er erfitt að hreyfa sig með þessa kúlu á lærinu,“ sagði Fannar sem slapp nokkuð vel en búist er við því að hann verði ekki mikið meira en næstu vikuna frá parketinu.
 
,,Þetta hefði geta farið verr en Fannar lét sig samt hafa það að vera með á móti Haukum í æfingaleik í gærkvöldi. Honum var ráðlagt að skokka og koma blóðinu á hreyfingu en líður smá fyrir það núna,“ sagði Hrafn Kristjánsson þjálfari KR sem getur prísað sig sælan að ekki skyldi verr fara. ,,Fannar er marinn frá hné og upp í nára og þarf næstu viku í hvíld en hann er samt þannig að hann lætur ekkert stöðva sig,“ sagði Hrafn um miðherjann sinn.
 
Ljósmynd/ Þeir eru sennilega ekki margir leikmennirnir í Iceland Express deild karla sem kunna að taka hryssur í sónar en það gerir Fannar þó sumum ferfætlingunum falli það misvel í geð eins og meiðsli miðherjans gefa til kynna.
 
Fréttir
- Auglýsing -