Seinni æfingaleikur íslenska karlalandsliðsins gegn Belgíu fer fram kl. 17:00 á morgun á Akranesi. Hægt verður að ferðast á leikinn frá Reykjavíkurhöfn með Akranesinu kl. 15:00, en ferjan mun svo fara aftur til baka eftir leik kl. 19:30 og kostar sú ferð litlar 3000 kr.
Einnig mun verða opið Fan Zone á Gamla Kaupfélaginu þar sem þjálfari íslenska liðsins, Craig Pedersen, mun sitja fyrir svörum og spjalla við gesti kl. 15:45. Nokkuð nýtt að áhorfendur fái slíkt góðan aðgang að þjálfara liðsins, sem eflaust verður gaman að nýta sér til þess að fá betri innsýn bæði fyrir þennan leik liðsins gegn Belgíu, sem og undirbúninginn fyrir lokamót EuroBasket sem hefst í lok ágúst.
Á Facebook síðu körfuknattleiksdeildar íþróttafélags Akranes er einnig bent á tengingar vesturlandsins við þetta landslið sem Ísland teflir fram, en þær má sjá hér fyrir neðan.
Mynd / Bára Dröfn – Frá fyrri leik Íslands og Belgíu sem fram fór í Smáranum í gær