spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaElvar Már hefur farið vel af stað í Litháen þó liðið leiti...

Elvar Már hefur farið vel af stað í Litháen þó liðið leiti enn að fyrsta sigurleiknum “Við erum að byggja þetta upp núna”

Elvar Már Friðriksson og félagar í BC Šiauliai mæta liði Nevezis Optibet í LKL deildinni í Litháen kl. 13:00 að íslenskum tíma í dag. Gengi liðanna fyrir leikinn nokkuð ólíkt, þar sem að Nevezis eru í 5. sætinu með þrjá sigur leiki á meðan að Šiauliai er enn án sigur við botn deildarinnar.

Hægt er að fylgjast með Elvari og LKL deildinni í gegnum Fanseat hér, þar sem að áskrift kostar aðeins um 1600 kr. á mánuði.

Elvar hefur þó persónulega farið nokkuð vel af stað, þar sem hann er ofarlega í helstu tölfræðiþáttum meðal leikmanna deildarinnar eftir fyrstu sex umferðirnar og var hann meðal annars valinn í lið vikunnar í síðustu viku eftir 20 stiga, 4 frákasta og 4 stoðsendinga frammistöðu sína gegn Lietkabelis.

Karfan setti sig í samband við Elvar og spurði hann út í byrjunina á tímabilinu, lífið í Litháen og muninn á þeim deildum sem hann hefur verið í síðastliðin þrjú ár, en til Litháen kom hann frá Svíþjóð og þá var hann með Njarðvík í Dominos deildinni á Íslandi tímabilið 2018-19.

Hvernig finnst þér þú persónulega, sem og liðið fara af stað þetta tímabilið í Litháen?

“Þetta hefur farið brösulega af stað hjá okkur. Ekki ennþá unnið leik í deildinni en svo hafa líka verið mikið um skiptingar á leikmönnum. 3 farnir og 3 nýjir komnir inn svo við erum að byggja þetta upp núna hægt og rólega með svolítið nýjan mannskap”

Er mikill munur að fara úr Dominos, til Svíþjóð og svo til Litháen? Hvernig myndir þú lýsa muninum á þessum deildum?

“Það er klárlega meira stökk fyrir mig núna þar sem þessi deild er mun hávaxnari og meiri breidd hjá liðum. Mjög klókir og góðir leikmenn hérna”

Hvernig er Friðriksson fjölskyldan að aðlagast aðstæðum í ŠIAULIAI?

“Bara ágætlega, lífið hérna er mjög fínt. Kannski aðeins öðruvísi aðstæður núna þar sem við erum ekki í kringum mikið af fólki þar sem flestir reyna að vera fyrir sig meðan faraldrinum stendur yfir”

Tölfræðin þín algjörlega frábær það sem af er, varst þú að búast við að fara svona vel af stað þarna? 

“Ég svosem hef ekkert verið að búast við neinu ákveðnu. Ég er í stóru hlutverki og reyni að spila eins vel og ég get í hverjum leik. Hefði viljað vera kominn með nokkra sigra en ég held bara áfram að reyna spila vel fyrir liðið”

Leikur gegn Nevezis í dag, við hverju má búast af þínum mönnum í honum?

“Við vorum að fá 3 nýja leikmenn inn og fengum heila æfingaviku saman svo við höfum náð að slípa okkur aðeins betur saman sem lið svo ég býst við hörkuleik og þetta er leikur sem við eigum góðan möguleika til þess að ná í fyrsta sigurinn”

Fréttir
- Auglýsing -