10:30
{mosimage}
(Einar Árni og Alexander Ragnarsson formaður unglingaráðs UMFN handsala samninginn)
Í gærkvöld undirrituðu þeir Alexander Ragnarsson formaður Unglingaráðs körfuknattleiksdeildar UMFN og Einar Árni Jóhannsson samning milli Unglingaráðs og Einars Árna þess efnis að hann verði yfirþjálfari yngri flokka félagsins næstu fimm árin.
Einar Árni er uppalinn Njarðvíkingur og á 15 ár að baki í starfi hjá félaginu til þessa. Hann þjálfaði meistaraflokk kvenna hjá félaginu á árunum 2001-2003 og var einnig aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla á árunum 1997-2000 og svo aftur árið 2004. Hann tók svo við meistaraflokki karla sumarið 2004 og stýrði liðinu í þrjú ár, og varð m.a. Bikarmeistari 2005 og Íslandsmeistari 2006 með liðið.
Einar Árni tók við meistaraflokksliði Breiðabliks vorið 2007 og stýrði þeim til sigurs í 1.deildinni tímabilið 2007-2008 og í vetur varð liðið í 8. sæti Iceland Express deildar karla undir hans stjórn en duttu út gegn KR í 8 liða úrslitum úrslitakeppninnar.
Karfan.is ræddi við Einar af þessu tilefni en hann var m.a. viðfangsefni okkar í aprílgabbi Karfan.is en því er hér með komið á framfæri að þessi frétt um vistaskipti Einars aftur í Ljónagryfjuna er sönn og rétt!
Hver verða þín fyrstu verk þegar þú kemur aftur heim í Njarðvík?
Það mun væntanlega mest snúa að skipulagi sumarsins sem og næsta vetrar en ég er einnig með séræfingar fyrir unglingana á morgnana og er að þjálfa snillingana í 7 & 8 ára minnibolta drengja.
Hver voru viðbrögð Blika þegar þú sagðir stopp í Kópavogi?
Ég er nú þakklátur fyrir það að þar vildu menn halda samstarfinu áfram en þar var jafnframt skilningur á minni ákvörðun. Ég átti gott samstarf við menn í Kópavoginum og ég held að ég geti sagt að menn hafi bara skilið sáttir eftir tvö góð ár.
Hefur þú augastað á því að vera eitthvað viðriðinn meistaraflokkana í Njarðvík?
Það er ekki á dagskrá núna. Njarðvík er með toppmenn að þjálfa báða meistaraflokkana og ég er að fara inn í töluvert starf hjá unglingaráði sem ég hlakka til að takast á við.
Tekur þú eitthvað af Njarðvíkingunum úr Breiðablik með þér til baka í Ljónagryfjuna?
Það er heldur ekki á dagskrá hjá mér. Þeir drengir sem léku með Breiðablik og eru uppaldir í Njarðvík eru fullorðnir menn þó ég eigi nú reyndar alltaf eftir að líta á þá sem gutta. Ég hef þjálfað þá alla í ansi mörg ár og því samstarfi lauk núna um miðjan mars, allavega í bili. Ég veit að tveir þeirra hafa skoðað möguleika með nám erlendis en annars veit ég ekki hvað verður hjá þeim.
Hvað munt þú nákvæmlega taka þér fyrir hendur í Ljónagryfjunni?
Ég mun taka við sem yfirþjálfari yngri flokka af vini mínum Örvari Kristjánssyni en mun þó áfram vinna náið með honum en hann mun snúa sér að öðrum verkefnum í félaginu. Ég mun samhliða því þjálfa yngri flokka og sjá um séræfingar hjá félaginu.
Hver finnst þér vera stærstu verkefnin sem Njarðvíkingar standa frammi fyrir í dag?
Það er alltaf nóg af stórum verkefnum hjá félagi sem hugsar stórt. Njarðvík á sér glæsta sögu og þar er mikið af metnaðarfullu fólki sem vill halda úti góðu starfi og stefna í fremstu röð eins og menn eru vanir þar á bæ. Það hafa orðið óþægilega miklar breytingar á meistaraflokki karla hjá félaginu á síðustu árum og í kjölfarið er smá þolinmæðisvinna í gangi þar. Efniviðurinn er mikill í félaginu og ég er sannfærður um að liðið á eftir að færast á kunnuglegar slóðir á næstu árum. Ætli stærstu verkefni félagsins séu ekki að finna stöðugleika og skýra stefnu og fá sem flesta félagsmenn til að taka þátt í þeirri vinnu á næstu árum.
Þegar þú hættir með meistaraflokkinn í Njarðvík í maímánuði 2007 sagðir þú að tími væri kominn á breytingar hjá þér. Nú ertu kominn aftur í Njarðvík og snýrð þér að yngri flokkunum, ertu nokkuð búinn að gefa meistaraflokksþjálfun alfarið upp á bátinn?
Alls ekki. Ég hef þjálfað yngri flokka núna í 16 ár og þó ég hafi þjálfað meistaraflokka töluvert á síðustu árum þá hef ég alltaf verið með yngri flokka líka. Það var hollt og gott fyrir mig að breyta til á sínum tíma og núna ákvað ég að taka mér frí frá meistaraflokksþjálfun í bili en svo veit maður aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.
[email protected]
Mynd: www.umfn.is