spot_img
HomeFréttirEigandi Bulls segir frammistöðu liðsins skammarlega

Eigandi Bulls segir frammistöðu liðsins skammarlega

02:07:02
 Liði Chicago Bulls hefur gengið herfilega það sem af er tímabili og hefur unnið 20 leiki og tapað 27. Þrýstingurinn eykst stöðugt á Vinny Del Negro, þjálfara liðsins, sem er að reyna sig sem aðalþjálfari í fyrsta sinn á ferlinum.

Nú hefur Jerry Reinsdorf, eigandi Bulls, sagt opinberlega að hann hafi oft langað til að standa upp með stuðningsmönnum liðsins og púa á leikmenninna.

Nánar um ummælin og úttekt á stöðu Bulls hér að neðan…

„Ég veit það eitt að það sem er í gangi hjá okkur þessa stundina er ekki gott og verður að batna. Leikmennirnir hafa að vísu verið að berjast síðustu sex leiki eða svo, en suma leiki var eins og þeir væru alveg áhugalausir þannig að mig langaði helst til að standa upp og púa á þá með öllum hinum.“

Þegar hann var beðinn um að gefa tímabilinu einkunn sagði hann: „Hver er lægsta einkunnin sem hægt er að gefa? Þetta er búið að vera hörmung og skammarlegt, en þetta er allt að breytast til batnaðar.“

Hann sagði framkvæmdastjórann, John Paxon, ekki eiga þátt í slæmu gengi liðsins, en minntist ekkert á framtíðarhorfur Del Negros hjá liðinu.

„Ef það er einhver maður sem ber ekki ábyrgð á ástandinu er það John Paxon. Ég hef tröllatrú á honum.“

Del Negro sagði í viðtali við fjölmiðla eftir þessa yfirhalningu að hann væri viss um að Reinsdorf væri með þessu að reyna að blása mönnum baráttuanda í brjóst.

„Hann leyfir mér að sinna mínu starfi. Við hittumst stundum og sendum skilaboð okkar á milli, en ergelsið hlýtur að vaxa  hjá honum eins og öllum öðrum. Ég reyni hins vegar bara að einbeita mér að því sem ég get stjórnað og það er að bæta leik liðsins og mér finnst við vera á réttri leið.“

Chicago hefur í mörg ár verið með eitt best mannaða lið NBA-deildarinnar, en hefur ekki náð að kreista það besta út úr hópnum þrátt fyrir ótvíræða hæfileika. John Paxon hefur gert vel í að fá leikmenn til liðsins, bæði úr nýliðavali og í gegnum skipti, en með undantekningum þó.

 Ben Wallace fékk risasamning sem hann vann ekki nokkurn veginn fyrir og til að losna við hann þurftu Bulls að taka til sín mann eins og Larry Hughes sem er sífellt meiddur og sjaldan til friðs að öðru leyti. Þá er ljóst að Joakim Noah, sem var valinn í nýliðavalinu fyrir tveimur árum, mun varla standast væntingar þar sem hann er hvorki að skila nægu inni á vellinum né utan hans og hann hefur þar fyrir utan lent í deilum við þjálfara og aðra leikmenn. Loks má minnast þess að Bulls völdu LaMarcus Aldridge fyrir þremur árum síðan, en skiptu honum til Portland fyrir Tyrus Thomas, sem á enn langt í land með að ná Aldridge í getu.

Meiðsli lykilmanna eins og Kirk Hinrich, Drew Gooden og Luol Deng hafa að sjálfsögðu spilað inn í, en með tilkomu Derricks Rose hefði liðið engu að síður getað spjarað sig betur.

Nú eru leikmenn að snú aftur úr meiðslum og verður fróðlegt að sjá hvort gengið breytist til hins betra. Það vill þeim til happs að Austurdeildin er uppfull af miðlungsliðum sem eru að keppa um síðustu sætinn inn í úrslitakeppnina og er ennþá allt opið fyrir Bulls ef þeir girða sig í brók og hver veit nema þeir eigi eftir að koma á óvart á vormánuðum.

Heimild: AP

Mynd/bulls.com: Reinsdorf með meistarabikarana sex sem gullaldarlið Bulls unnu til. Hann er einnig meirihlutaeigandi í hafnaboltaliðinu Chicago White Sox sem vann meistaratitilinn í þeirri ágætu íþrótt árið 2005.

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -