spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaDúi Þór með 37 stig er Álftanes vann enn einn jafnan leikinn

Dúi Þór með 37 stig er Álftanes vann enn einn jafnan leikinn

Í 6. umferð keppninnar í 1. deild karla mættust á Flúðum heimamenn í liði Hrunamanna og Álftanes. Hrunamenn höfðu fyrir leikinn unnið tvo leiki en tapað þremur. Álftnesingar voru ósigraðir. Það breyttist ekki í kvöld. Álftanes gerði 87 stig en Hrunamenn 78.

Hrunamenn byrjuðu leikinn vel og voru yfir 27-15 að loknum 1. leikhluta. Ahmad Gilbert var drjúgur fyrir heimamenn, Eyþór Orri stýrði umferðinni af skynsemi og það var kraftur í Friðriki Heiðari. Í 2. fjórðungi söxuðu Álftnesingar hægt og bítandi á forskotið og náðu að komast yfir þegar mínúta var eftir. Sókn Hrunamanna brást illa gegn „box out“ varnarafbrigði Álftanes þar sem allir aðrir leikmenn liðsins en Gilbert fengu þokkalegan frið til þess að skjóta á körfuna.

Þeir skutu lítið og þau skot sem voru reynd rötuðu ekki rétta leið. Í seinni hálfleik skaut liðið fleiri þriggja stiga skotum en nýtingin var jafnslæm og í fyrri hálfleik eða 16%, 7 heppnuð úr 44 tilraunum. Álftnesingarnir hittu lítið betur; þeir skoruðu 5 þriggja stiga körfur úr 22 tilraunum, Dúi Jónsson gerði 4 þeirra.

Dúi lék stórkostlega fyrir Álftanes. Hann skoraði 37 stig, gaf 9 stoðsendingar og var potturinn og pannan í öllu sem Álftnesingar gerðu í síðari hálfleiknum. Hrunamenn réðu ekkert við Dúa en þeim tókst ágætlega að eiga við Cedrick og Dino sem hafa oft leikið betur. Sóknarleikur Hrunamanna var oft á tíðum hægur og tilviljunarkenndur. Álftnesingarnir fundu lausnir sem dugðu vel gegn sóknaraðgerðum heimamanna. Vörn Hrunamanna var oft á tíðum ágæt en af og til brutu leikmenn heimaliðsins af sér þegar þess þurfti alls ekki. Ólöglegar hindranir, leikbrot þar sem boltinn var hvergi nærri og hættan engin og slík illa ígrunduð leikbrot gerðu liðinu erfitt fyrir þegar leikurinn var í járnum.     

Álftanesliðið er enn ósigrað. Það er þó enginn glæsibragur yfir leik liðsins þótt það sé skipað mörgum góðum leikmönnum. Pálmi Geir sem lengi hefur verið einn albesti íslenski leikmaðurinn í 1. deildinni á mikið inni, Eysteinn sömuleiðis og Dino og Cedrick hafa oft leikið betur. Ragnar Jósef sem er annáluð skytta náði varla skoti á körfuna og Snjólfur sem fékk tækifæri í byrjunarliðinu gerði aðeins 1 stig á 12 og hálfri mínútu en Dúi var geggjaður.

Hittni Hrunamanna var skelfilega slök í kvöld. Varnarleikur þeirra var nógu góður til þess að aðeins ein stjarnanna í liði Álftaness náði að skína en hann var alls ekki nægilega agaður og stöðugur. Í næstu umferð mæta Hrunamenn ÍA á Skaganum og Álftanes tekur á móti Skallagrími.

Aðeins 7 leikmenn í hvoru liði fengu traust þjálfaranna til þess að leika leikinn. Það er umhugsunarvert. 

Tölfræði leiks

Úrslit kvöldsins

Myndir / Birgitte Bruger

Fréttir
- Auglýsing -