Sasha Djordjevic er nagli. Þegar hann spilaði fyrir Júgóslavíu hér áður fyrr var ekkert skot of langt í burtu eða of erfitt. Í dag þjálfar hann landslið Serbíu og hugafarið virðist vera slíkt hið sama. Enginn leikur er fyrirfram tapaður. Jafnvel gegn bandaríska landsliðinu sem hefur viðhaldið 32,5 stigamun gegn andstæðingum sínum í þessu móti.
“Þar til þeir sýna okkur í 40 mínútur að þeir séu betra lið en við, mun ég ekki segja að þeir séu með betra lið,” sagði Djordjevic í viðtali við Chris Sheridan í gær.
Er eitthvað rangt í þessu? Þessi lið hafa ekki mæst áður í mótinu og því er ekkert öruggt fyrirfram. Pressan er öll á Bandaríkin að standa undir væntingum eigin þjóðar. Serbar hafa sannað sig langt fram úr vonum allra. Þeir geta mætt kokhraustir í leikinn í kvöld.
Serbar hafa átt erfitt uppdráttar í körfuboltaheiminum undanfarið. Komust ekki inn á Ólympíuleikana í London 2012 og rétt sluppu inn á þetta mót. Hér er því mögulega um uppreisn æru þessa gamla körfuboltastórveldis að ræða. Djordjevic er því væntanlega vel trekktur fyrir þennan leik.
Milos Teodosic skaut 9/12 gegn Frökkum í undanúrslitunum, þar af 5/7 í þristum. Hann bókstaflega lék sér að bakvörðum franska landsliðsins og ekki ólíklegt að hann geri slíkt hið sama gegn því bandaríska. Bakverðir Bandaríkjanna eru ekki beint þekktir fyrir stífa pressuvörn, fyrir utan kannski Derrick Rose. Þeir geta einnig dælt boltanum bara inn á þann sem James Harden er að dekka. Það virkaði vel fyrir Litháa.
Liðið allt skaut 8/15 í þristum gegn Frakklandi. Hver veit nema sú tala tvöfaldist í kvöld gegn Bandaríkjamönnum.
Leikurinn hefst kl. 19:00 og verður sýndur beint á íþróttarás RÚV.