Það er þó nokkuð laskað Keflavíkurlið sem heldur til Sauðárkróks nú í hádeginu en Jón Norðdal Hafsteinsson aðstoðarþjálfari liðsins staðfesti það við Karfan.is nú rétt í þessu að Damon Johnson komi ekki til með að vera með liðinu í kvöld og jafnvel hefur hann leikið sinn síðasta leik á þessu ári. Damon á við meiðsli í hné að stríða og talið er að jafnvel þurfi að gera aðgerð á lifþófa en samkvæmt Jóni þá kemur það í ljós á morgun.
Damon er hinsvegar ekki eini sem er á meiðslalistanum því í vikunni datt Arnar Freyr Jónsson illa á hendina og talið að hann hafi jafnvel brákað fingur. Gunnar Einarsson mun síðan hafa þurft að sinna persónulegum málum og er því ekki með í rútunni.
“Þrátt fyrir þennan missi hjá okkur förum við á Krókinn til að vinna það er engin spurning. Þetta er náttúrulega slæmt fyrir okkur en við vinnum bara úr því sem við höfum og sjáum svo til.” sagði Jón Norðdal Hafsteinsson sem stýrir liðinu í fjarveru Helga Jónasar Guðfinnssonar sem er einnig á “meiðslalistanum” eins og við greindum frá fyrr í vikunni.