Það er löngu vitað að Ólafur Ólafsson í Grindavík er genatískt viðundur. Stekkur eins og gormur og honum finnst ekkert vera ómögulegt þegar hann er inni á vellinum. Það er það sem gerir hann svo skemmtilegan að horfa á.
Gestir á leik KR og Grindavíkur um meistara meistara karla á sunnudaginn urðu vitni að óttaleysi hans inni á vellinum, þegar skyndilega við innkast undir KR körfunni opnast teigurinn fyrir Ólaf. Ólafur fær boltann tekur stökk og ætlar sér að hamra boltanum niður en Mike Craion hélt nú síður og varði hugrakka tilraun Ólafs.
Fyrst af öllu verður að taka fram að Ólafur á heiður og mikla virðingu skilið fyrir að leggja í þessa vegferð. Þeir gætu talist á fingrum annarar handar þeir í Dominosdeildinni sem hafa líkamlega burði til að framkvæma það sem hann ætlaði sér. Enn færri sem hefðu þorað því, vitandi af Mike Craion í húsinu.
Hefði Craion verið sekúndubroti síðar á staðinn hefði hann þegið eitt hrottalegasta veggspjald í grímuna sem sést hafi á hinni eldgömlu Ísafold — EVER!
Strax eftir þetta varð einkennilegt andrúmsloft í höllinni. Nokkrar stunur heyrðust á pöllunum á meðan fólk var að meðtaka það sem það varð vitni að. Hægt og rólega fóru klöppin að heyrast þegar fólk áttaði sig á því að Craion hafði unnið þessa lotu. Allir áttuðu sig hins vegar á því að þetta hefði alveg getað endað á hinn veginn.
Virðing Ólafur Ólafsson, virðing.
Þökkum KRtv fyrir að festa þessi mögnuðu tilþrif á myndband.
*** UPPFÆRT KL: 22:10 ***
Glöggur lestandi benti okkur á að þetta hafi nú ekki verið í fyrsta skiptið sem þessir tveir mætast í háloftunum. Síðast var það þegar Craion var með Keflavík. Þá hafði Ólafur Ólafsson betur og landaði einni hressilegri í andlitið á Craion. Færið er reyndar mun erfiðara fyrir Craion að verja en tilþrifin eru stórkostleg engu að síður. Hat tip til Egils Birgissonar.