08:47:25
Cleveland Cavaliers tryggðu sér í nótt besta árangurinn í NBA í ár og þar með heimavallarrétt alla úrslitakeppnina. LA Lakers voru þeir einu sem höfðu möguleika á að ná þeim en með sigri á Indiana, 109-117, tryggðu Cavs sér heimaleikjaréttinn á erfiðasta velli deildarinnar þar sem einungis eitt lið hefur sótt sigur í allan vetur, einmitt LA Lakers.
Fastlega er búist við því að flestir lykilmenn Cleveland hvíli í næsta leik, sem er síðasti leikur þeirra í deildarkeppninni, þrátt fyrir að með sigri geti þeir jafnað met Boston Celtics frá tímabilinu 1985-86 með 40 heimasigrum á tímabili. LeBron James, sem skoraði 37 stig í nótt og er manna líklegastur til að hljóta viðurkenningu sem verðmætasti leikmaður deildarinnar, sagði hins vegar að þeir væru ekki lengur að elta nein met heldur væri stefnan tekin á meistaratignina og allt gert til að ná því marki.
Á meðan vann Denver botnlið Sacramento og tryggði með því efsta sætið í Norð-vesturriðlinum, Chicago komst upp fyrir Philadelphia í 6. sæti austursins með sigri á Detroit og Greg Oden náði loks að skáka Kevin Durant þegar lið þeirra, Oklahoma og Portland mættust. Oden var valinn á undan Durant en hefur ekki náð að fylgja þeim síðarnefnda í velgengni á vellinum fyrr en í nótt þegar hann skoraði 16 stig og tók 9 fráköst á 20 mín á meðan Durant gerði aðeins 10 stig á 30 mínútum. Auk þess vann Portland leikinn örugglega.
Portland hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu og getur skotist upp í fjórða sætið í Vesturdeildinni á kostnað Houston eða San Antonio og fengi þá heimavallarrétt gegn því liði í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Þá má geta þess að Orlando tapaði í nótt þriðja leiknum í röð en þeir eru í hvað verstu meiðslavandræðum allra toppliða fyrir úrslitakeppnina. Kevin Garnett hjá Boston kemur ekki inn fyrr en í fyrstu umferðinni í úrslitakeppninni.
Loks hefur verið tilkynnt að Flip Saunders, sem hefur gert garðinn frægan m.a. sem þjálfari Minnesota og Detroit, mun á næstunni skrifa undir fjögurra ára samning við Washington Wizards, sem er með versta vinningshlutfall í Austurdeildinni. Gamli leikstjórnandinn Sam Cassell verður sennilega aðstoðarþjálfari hans.
Hér eru úrslit næturinnar:
Toronto 97
Washington 96
Cleveland 117
Indiana 109
Charlotte 87
New Jersey 91
Chicago 91
Detroit 88
Orlando 80
Milwaukee 98
Minnesota 94
Dallas 96
New Orleans 66
Houston 86
LA Clippers 85
Utah 106
Sacramento 98
Denver 118
Memphis 110
Phoenix 119
Oklahoma City 83
Portland 113
San Antonio 101
Golden State 72
ÞJ