spot_img
HomeFréttirCheeks rekinn frá Philadelphia

Cheeks rekinn frá Philadelphia

22:25:19
 Maurice Cheeks var í dag sagt upp störfum sem þjálfari Philadelphia 76ers eftir brösugt gengi í upphafi leiktíðar. Liðið er á botni Atlantshafsriðilsins með vinningshlutfallið 9-14 þrátt fyrir að hafa fengið stjörnuna Elton Brand til sín fyrir stórar fjárhæðir í sumar. Tony DiLeo, aðstoðar-framkvæmdastjóri liðins, hefur verið settur þjálfari tímabundið.

Nánar hér að neðan:
Cheeks hefur verið við stjórnvölinn hjá Philadelphia í rúm þrjú leiktímabil, en hann þjálfaði áður hjá Portland Trailblazers á árunum frá 2001 til 2004. Hann hefur aðeins tvisvar komist með lið sín í úrslitakeppnina, síðast í vor, en það vakti upp væntingar um gott gengi í ár sem ekki hafa orðið að veruleika.

Hann var sem leikmaður hluti af meistaraliði Philadelphia 1983 ásamt Moses Malone Julius Erving og fleirum og er einn af dáðustu leikmönnum í sögu liðsins. Hann þykir einn besti varnarbakvörður allra tíma og átti met yfir stolna bolta á ferlinum áður en hann lagði skóna á hilluna árið 1993. Hann er nú fjórði á listanum, á eftir John Stockton, Michael Jordan og Gary Payton.

Hann er fimmti þjálfarinn sem sagt er upp störfum í vetur en hinir eru: P.J. Carlesimo (Oklahoma City), Eddie Jordan (Washington), Sam Mitchell (Toronto) og Randy Wittman (Minnesota).

Heimild: Yahoo! Sports/AP

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -