Andrew Bynum var ómyrkur í máli eftir að LA Lakers töpuðu öðrum heimaleiknum sínum í röð í undanúrslitum vesturstrandarinnar í NBA deildinni. Bynum sagði í samtali við fréttamenn eftir leik að það væri augljóst að Lakers-liðið væri að glíma við að traust væri ekki á milli manna og að stíga yrði fram og ávarpa þetta vandamál. Lakers er 0-2 undir gegn Dallas Mavericks en serían færist nú yfir á heimavöll Dallas.
Bynum sagði að þetta vandamál kæmi augljóslega fram í leik liðsins, hikandi sendingar og menn ekki viljugir til þess að hjálpa hverjum öðrum. Hann sagði að komast yrði að rótum vandans og það væri lykilatriðið og að þetta vandamál væri í raun búið að elta Lakers-liðið allt tímabilið.
Myndbandið af viðtalinu við Bynum er athyglisvert fyrir margra hluta sakir, kappinn býður upp á tyggjó allt viðtalið og smjattar í hljóðnemana og á köflum með skæting við blaðamenn.