spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaBryndís: Allt tal um að flauta mótið af og „hleypa útlendingunum heim“...

Bryndís: Allt tal um að flauta mótið af og „hleypa útlendingunum heim“ er sagt án þess að hugsa til þessara leikmanna

Fordæmalausar aðstæður eru uppi í heimi íþrótta þessa dagana. Þar sem að keppni hefur annaðhvort verið frestað um óákveðinn tíma, eða tímabilinu aflýst í flestum deildum.

Karfan fór af stað og tók stöðuna hjá nokkrum málsmetandi aðilum.

Næst í röðinni er Bryndís Gunnlaugsdóttir, aðstoðarþjálfari fyrstu deildar liðs ÍR og stjórnandi Aukasendingarinnar á Körfunni.

Hvernig er að vera án körfubolta útaf þessum aðstæðum?

“Körfubolti gefur sannarlega lífinu lit en á sama tíma er gott að geta einbeitt sér að því sem raunverulega skiptir máli í þessum aðstæðum og það er að verja tíma með fólkinu sínu og leggja sitt að mörkum í þessari baráttu. „Við erum öll almannavarnir“ og allir verða að leggja sitt af mörkum”

Nú eru stórar ákvarðanir framundan hjá körfuboltahreyfingunni, hvað finnst þér mikilvægast að sé til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar?

“Ég öfunda ekki stjórn KKÍ að vera í þessari stöðu og augljóst af samtölum við körfuboltafólk að allir hugsa út frá sínum hagsmunum. Sem er fullkomnlega eðlilegt í þessari stöðu. Það sem mér þykir samt miður í þessari stöðu er að allir eru með miklar áhyggjur af fjárhag félagana ef mótið dregst langt inn í sumarið en enginn hefur rætt um hag erlendra leikmanna. Allt tal um að flauta mótið af og „hleypa útlendingunum heim“ er sagt án þess að hugsa til þessara leikmanna. Það er ekki eins og þeir geti hoppað í næsta launaða starf enda liggja deildir niðri um allan heim. Aðstæður í heimalandinu og heilbrigðiskerfinu þar geta líka verið misjafnar. Ég væri því til í að körfuboltahreyfingin talaði að aðeins meiri virðingu um þær persónur sem eru þarna að baki. Ég geri mér fulla grein fyrir því að auðvitað er dýrt að halda fólki á launum ef engir peningar koma inn en ég veit að sama fólk gerir þær kröfur til sinna vinnuveitenda. Félög sem leggja út með að vera með fjölda erlendra og íslenskra leikmanna á launaskrá eða sem verktakar verða að átta sig á þeirri ábyrgð sem því fylgir. Ég geri mér einnig grein fyrir því að margir erlendir leikmenn vilja drífa sig heim. En já, ég vil manneskjulegra tal í umræðuna”

“En já – hvað á að hafa til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar? Ég held að það sem eigi að vera til hliðsjónar er það sem er best fyrir körfuboltahreyfinguna og líklegra til að hjálpa okkur að koma körfuboltanum hratt og örugglega af stað aftur. Ef það er vænlegra til árangurs að fresta mótinu og spila nokkurs konar hraðmót í vor, jafnvel þótt það þýði án flestra erlendra leikmanna, þá gerum við það. En ef vænlegra til árangurs er að flauta mótið af og byrja aftur næsta haust þá gerum við það. Ég persónulega er samt ekki hrifin af því að vera með ókláruð verkefni og verkefni ÍR í mfl.kvk var að fara upp”

Stórum spurningum enn ósvarað, fari svo að tímabilinu verði aflýst. Hvað leggur þú til að verði gert varðandi þau lið sem koma eigi upp, falla eigi niður og finnst þér að eitthvað lið ætti að fá þann stóra, líkt og við höfum séð í Belgíu og Svíþjóð?

“Hlynur Bærings orðaði þetta vel þegar hann sagði að enginn verði meistari við það eitt að Hannes mæti með bikar, það þarf að fara í gegnum úrslitakeppni. En ef engin verður íslandsmeistari er þá hægt að hleypa liðum upp og niður um deild? Er móti lokið án íslandsmeistara? Ég hef heyrt pælingar um að hleypa fleiri liðum upp í Dominos deild kvenna og ég er hrifin af þeirri hugmynd en hún má ekki verða á kostnað þess að 1.deild kvenna leggjist af loksins þegar við erum að ná henni almennilega af stað því sú deild er nauðsynleg fyrir nýliðinu. Á sama tíma sér maður ekki fram á að öll lið úr 1.deild karla geti farið upp og það endi með 17 liða Dominosdeild karla”

“Þannig að í mínum huga er best að klára mótið með styttri útgáfu. Klára þá deildarleiki sem eru eftir og spila svo úrslitakeppnina þar sem eingöngu þarf að vinna 1 leik til að komast áfram (engin sería heldur eins og bikar). Auðvitað er ósanngjarnt að einhverjir munu mæta til leiks án erlendra leikmanna o.s.frv. en ég vil frekar útkljá þessi mál inn á vellinum heldur en í einhverri skriffinsku bak við tjöldin og engin mun vera sáttur. Ég held þetta sé líka mikilvægt fyrir áhorfendur – það verða allir þyrstir í körfubolta. En ef þetta ástand varið langt fram á haust þá verður þetta auðvitað erfiðara”

Fari svo að því verði frestað, sérðu fyrir þér að liðin verði klár til þess að klára mótið seinna, jafnvel í sumar?

“Ég veit að við í mfl.kvk í ÍR erum búin að setja upp æfingaplan miðað við þær heimildir er koma fram í leiðbeiningum frá almannavörnum og ÍSÍ. Þá auðvitað með þeim formerkjum að engin þarf að taka þátt sem ekki vill mæta og æfa og fólk getur haldið sér ansi vel í formi heima fyrir. Einnig er hægt að æfa mikið með bolta þótt maður sé einn. Spilið yrði að sjálfsögðu ryðgað en ég vil frekar sætta mig við ryðgaða úrslitakeppni heldur en enga”

Að lokum, með hverju mælir Bryndís í samkomubanninu?

“Ég mæli með að allir iðkendur eignist körfubolta ef þeir eiga hann ekki nú þegar og nýti tímann til að æfa tæknina, skot, drippl og sendingar (í vegg!). Svo er besta leiðin til að verða betri er að horfa á leiki hjá sjálfum sér og læra af mistökum. Ef ekki er hægt að ná í leiki hjá sjálfum sér þá finna aðra körfuboltaleiki til að horfa á og greina bæði mistök og hvað er gott”

“Sama á við um þjálfara, nú er tilvalið tækifæri til að sinna endurmenntun, greina leikmennina sína og gefa þeim verkefni til að vinna í meðan á samkomubanni stendur”

“Svo er það auðvitað þetta klassíska, verja gæðastund með vinum og ættingjum, njóta útiverunnar, hugsa um heilsuna og á hverjum degi hringja í ömmu og afa svo þau einangrist ekki eða aðra ættingja og vini sem eru í áhættuhóp og þurfa því að vera í nánast algjörri einangrun”

Fréttir
- Auglýsing -