spot_img
HomeFréttirBreiðablik hafði sigur á Val í framlengdum leik

Breiðablik hafði sigur á Val í framlengdum leik

Breiðablik og Valur áttust við í hörkuleik í 1. deild karla í Smáranum í kvöld. Fyrir leikinn hafði Valur einungis tapað einum leik í deildinni og sat á toppi hennar með 14 stig. Breiðablik vermdi hins vegar í 7. sæti með 6 stig. Þetta var fyrsti leikur Breiðabliks með erlendan leikmann en Zachary Jamarco Warren gekk til liðs við Kópavogsliðið á dögunum.

Breiðablik byrjaði leikinn betur og leiddi eftir fyrsta leikhluta með 5 stigum, 20-15. Valsmenn mættu sterkari til leiks í öðrum leikhluta og með þéttri vörn héldu þeir Breiðablik í 15 stigum í leikhlutanum og leiddu í hálfleik með 4 stigum, 35-39. Lítið var skorað á fyrstu mínútum seinni hálfleiks, Breiðablik minnkaði muninn í þrjú stig í stöðunni 38-41 og aftur í stöðunni 40-43. Leifur Steinn jók forystu Vals í 7 stig þegar skammt lifði þriðja leikhluta en þristur frá Breka Gylfasyni, rétt áður en klukkan rann út minnkaði muninn í 4 stig, 53-57. Valsmenn náðu 8 stiga forystu í upphafi fjórða leihluta með tveimur körfum frá Illuga Auðunssyni. Á eftir fylgdi góður kafli hjá Breiðablik þar sem þeir unnu upp forskot Vals og staðan jöfn eftir venjulegan leiktíma, 73-73. Jafnt var á með liðunum í framlengingunni, þegar fimm sekúndur voru eftir á klukkunni var staðan 81-81 og allt í járnum. Valsmenn brutu þá á Agli Vignissyni sem fékk að launum tvö víti, hann setti niður seinna vítið sem tryggði Breiðablik eins stigs sigur á toppliði Vals í hörkuleik, 82-81.

Stigahæstur í liði Breiðabliks var Zachary Jamarco Warren með 32 stig og 6 fráköst, Breki Gylfason var með 18 stig og 8 fráköst og Snjólfur Björnsson með 12 stig og 8 fráköst. Hjá Val var Jamie Jamil Stewart Jr. stigahæstur með 15 stig þrátt fyrir að hafa einungis spilað rúmar 12 mínútur í leiknum, Sigurður Dagur Sturluson bætti við 13 stigum og reif niður 7 fráköst fyrir Val og Illugi Steingrímsson setti 11 stig og tók 9 fráköst.

Breiðablik 82 – 81 Valur (20-15, 15-24, 18-18, 20-16, 9-8)

Stigaskor Breiðabliks: Zachary Jamarco Warren 32 stig/6 fráköst, Breki Gylfason 18 stig/8 fráköst, Snjólfur Björnsson 12 stig/8 fráköst, Snorri Vignisson 7 stig, Sveinbjörn Jóhannesson 6 stig/6 fráköst, Egill Vignisson 5 stig, Rúnar Ingi Erlingsson 2 stig/7 fráköst/9 stoðsendingar, Ásgeir Nikulásson 0 stig, Þröstur Kristinsson 0 stig, Halldór Halldórsson 0 stig, Ragnar Jósef Ragnarsson 0 stig, Sigurður Þórarinsson 0 stig.

Stigaskor Vals: Jamie Jamil Stewart Jr. 15 stig, Sigurður Dagur Sturluson 13 stig/7 fráköst, Illugi Steingrímsson 11 stig/9 fráköst, Þorgeir Kristinn Blöndal 10 stig/5 fráköst, Illugi Auðunsson 9 stig/5 fráköst, Benedikt Blöndal 7 stig/6 stoðsendingar, Högni Egilsson 6 stig/5 fráköst, Leifur Steinn Arnason 6 stig/10 fráköst, Kormákur Arthursson 2 stig, Skúli Gunnarsson 2 stig, Venet Banushi 0 stig, Friðrik Þjálfi Stefánsson 0 stig.

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -