12:30
{mosimage}
(Bragi)
Bragi Hinrik Magnússon og lærisveinar hans í Stjörnunni taka á móti toppliði KR í Ásgarði í sjöundu umferð Iceland Express deildar karla í kvöld. Karfan.is náði tali af Braga sem sagði að fátt myndi koma liði eins og KR á óvart og því yrðu sínir menn að láta KR-inga hafa fyrir öllu sem þeir gera.
Lukkan og endasprettirnir hafa ekki alveg verið með Stjörnunni í upphafi móts. Smellur þetta endanlega saman hjá ykkur gegn KR í kvöld?
Nei það er rétt, við höfum verið að tapa leikjum á lokasprettinum semm getur tekið vel á taugarnar. Ég vona það að ef leikar verði jafnir undir lokin á móti KR að þá getum við stigið upp og klárað en mikilvægast er þó fyrir okkur ef við ætlum að reyna að halda í við þá er að byrja vel.
Hvaða leið er líklegust til árangurs gegn KR? Margir hafa hoppað í svæðisvörn en líka farið flatt á henni gegn KR. Ætlar Stjarnan að nálgast leik kvöldsins eitthvað öðruvísi – verða óvæntar uppákomur?
Það er svosum lítið sem kemur liði eins og KR á óvart hugsa ég. Aðalmálið er að baráttan sé í lagi og ef við náum að láta þá virkilega hafa fyrir öllu sem þeir gera þá hugsa ég að það komi þeim í sjálfu sér á óvart.
Þið hélduð sæti ykkar í deildinni í fyrra. Er Stjarnan búin að setja sér einhver markmið fyrir þessa leiktíð? Eruð þið með stefnuna á úrslitakeppnina?
Já, úrslitakeppnin er okkar markmið enda finnst mér nauðsynlegt að lið stefni alltaf á að stíga skref upp frá síðasta tímabili. Ef það tekst aftur og aftur þá getur það bara endað vel.
Mynd: [email protected]