15:06
{mosimage}
(Nick Bradford í leik með Keflavík)
Óli Björn Björgvinsson formaður Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur staðfesti rétt í þessu við Karfan.is að Nick Bradford væri væntanlegur til Grindavíkur og myndi leika með liðinu í Iceland Express deild karla út leiktíðina ef allt gengi upp. Bradford gerði garðinn frægan með Keflavík leiktíðirnar 2003-2005 og þykir með kappsfyllri leikmönnum.
,,Hann mætir í fyrramálið ef allt gengur upp,“ sagði Óli Björn við Karfan.is í dag en fjármögnun fyrir komu Bradfords gekk vel að sögn Óla. ,,Við höfum m.a. staðið í söfnunum hér í Grindavík en það voru einstaklingar sem komu að máli við okkur og vildu fjármagna pakkann. Ég gaf þeim viku í þetta og það stóðst,“ sagði Óli Björn og bætti við að Grindvíkingar hefðu séð sig knúna til þess að fá sér erlendan leikmann.
,,Við vorum úrkula vonar um að KR þyrði að segja upp sínum erlenda leikmanni og sáum okkur knúna til að bæta við okkar hóp. Ég er harður á því að KR skyldi hafa haldið sínum leikmanni sé ástæðan fyrir því að við og önnur lið erum að bæta við okkur erlendum leikmönnum. Ef KR hefði látið sinn mann fara hefði engu félagi dottið það í hug að fá sér erlendan leikmann, þannig skapaði KR þessa stöðu,“ sagði Óli Björn.
Grindavík tekur á móti Njarðvík í Röstinni annað kvöld og verður fróðlegt að sjá hvort og hvernig Nick Bradford muni ríða af í þessum fyrsta leik sínum í Iceland Express deildinni á þessari leiktíð.
Tímabilið 2004-2005 þegar Nick lék með Keflavík gerði hann 20,2 stig að meðaltali í leik.