21:47
{mosimage}
(Þessi maður, Nick Bradford, bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn í DHL-Höllinni í kvöld)
Fyrsta tap KR í DHL-Höllinni á þessari leiktíð
Deildarmeistarar KR máttu í dag þola sinn fyrsta ósigur í DHL-Höllinni þegar Grindavík náði 2-1 forystu í úrslitaeinvígi liðanna í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Nick Bradford fór hamförum í sterku Grindavíkurliðinu með 47 stig, 8 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Gestirnir mættu klárir í slaginn og hreinlega rúlluðu yfir KR-inga og leiddu á köflum með 30 stiga mun. Lokatölur urðu þó 94-107 Grindavík í vil en gulir geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í Röstinni á laugardag þegar liðin mætast í sínum fjórða úrslitaleik kl. 16:00.
Jakob Örn Sigurðarson tók ekki langan tíma í að koma sér á blað í liði KR en hann skoraði ekki stig í fyrri hálfleik í öðrum leik liðanna í Grindavík. Jakob kom KR í 4-2 og höfðu heimamenn í KR frumkvæðið í upphafi leiks og leiddu 11-8 eftir sex mínútna leik en þessar sex mínútur einkenndust af háu spennustigi og slökum sóknum.
Eftir þessar sex mínútur gat Nick nokkur Bradford ekki á sér setið og datt í ham. Nick kom Grindavík yfir 12-13 með körfu og vítaskoti að auki en hann gerði alls 11 stig í röð fyrir gula og kom gestunum í 16-21 áður en næsti Grindvíkingur gat látið að sér kveða. Töluvert var flautað í þessum upphafsleikhluta og fengu liðin dæmdar á sig samtals 16 villur. Það var svo Brenton Birmingham sem átti lokaorðið fyrir gestina er hann keyrði inn í teiginn fram hjá Jóni Arnóri Stefánssyni og lagði boltann í netið og því leiddu guldir 19-25 eftir fjörugar lokamínútur í fyrsta leikhluta.
Guðlaugi Eyjólfssyni leiðist víst lítið fyrir utan þriggja stiga línuna og það sýndi hann með góðum þrist í upphafi annars leikhluta er hann kom Grindavík í 19-28. Skömmu síðar var fjörkálfurinn Nick Bradford á ferðinni og jók muninn í 22-35 með þriggja stiga körfu og við það tóku heimamenn leikhlé þegar fjórar mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta.
Gamli jaxlinn Nökkvi Már Jónsson kom beittur inn í annan leikhluta hjá Grindavík og fiskaði villur hægri vinstri á liðsmenn KR en hann var aðeins of ákafur og uppskar óíþróttamannslega villu fyrir peysutog en innkoma hans hleypti frekara kappi í Grindvíkinga. Heimamenn í KR vissu vart sitt rjúkandi ráð því Grindvíkingar voru einfaldlega betri á öllum sviðum. Páll Axel nelgdi niður þrist og kom gestunum í 24-40. Á meðan hittu KR-ingar ekki úr einu þriggja stiga skoti í fyrri hálfleik í sex tilraunum!
{mosimage}
Gestirnir úr Grindavík leiddu svo 34-47 í hálfleik þar sem Bandaríkjamaðurinn Nick Bradford var kominn með 24 stig og 4 fráköst en stigahæstir í liði KR í hálfleik voru Fannar Ólafsson og Jón Arnór Stefánsson báðir með 11 stig.
Nick Bradford opnaði síðari hálfleikinn með þriggja stiga körfu og kom Grindvíkingum í 34-50. KR-ingar áttu engin svör við Nick en Jón Arnór Stefánsson reyndi að keyra sína menn áfram en fáir urðu til þess að taka undir. Þorleifur Ólafsson viðhélt yfirburðum Grindavíkur með lygilega erfiðu þriggja stiga skoti sem rataði rétta leið og staðan orðin 37-58 fyrir Grindavík. Næstur í röðinni var Brenton Birmingham með stolinn bolta og troðslu í ofanálag og Grindvíkingar hreinlega að skóla til arfaslaka heimamenn.
Eftir troðslu Brentons tóku KR-ingar leikhlé þegar fimm og hálf mínúta var eftir af þriðja leikhluta og skiptu þeir yfir í svæðisvörn. Grindvíkingar svöruðu svæði KR-inga með þriggja stiga körfu strax í fyrstu sókn og fengu víti að auki! Hér var staðan orðin 40-64 fyrir Grindavík og það sem eftir lifði þriðja leikhluta héldu yfirburðir gestanna áfram og stóðu leikar 54-79 fyrir Grindavík þegar fjórði leikhluti var framundan.
Vesturbæingar pressuð af miklum ákafa í upphafi fjórða leikhluta og uppskáru fyrir vikið nokkra góða bolta úr höndum Grindavíkur en sama hvað heimamenn reyndu þá áttu gestirnir ávallt svar. Helgi Magnússon fór snemma í fjórða leikhluta af velli með fimm villur og 7 stig í sarpinum en það er hans slakasta frammistaða í einvíginu til þessa.
Darri Hilmarsson setti þrist fyrir KR og minnkaði muninn í 62-84 og flestir veltu því fyrir sér hvort KR gæti náð forskoti gestanna. Grindvíkingar slökktu fljótt allar viðlíka hugleiðingar því gestirnir úr Röstinni voru einfaldlega miklu betri á öllum sviðuðm. Skömmu áður en Nick Bradford kvaddi leikinn með fimm villur setti hann niður þrist og breytti stöðunni í 66-93 og þar með var KR ljónið endanlega yfirbugað.
{mosimage}
Lokatölur voru svo 94-107 fyrir Grindavík þar sem KR náði að klóra lítið eitt í bakkann á lokasprettinum. Jón Arnór Stefánsson var í dag atkvæðamestur í liði KR með 26 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst. Jón reyndi hvað hann gat til að drífa KR áfram en það fylgdi enginn í kjölfarið gegn sterkri Grindavíkurvörn. Næstur Jóni var Jason Doruisseau með 18 stig en hann gerði 17 stig í síðari hálfleik og flest þeirra komu þegar ljóst var í hvað stefndi.
Í spræku Grindavíkurliðinu var Nick Bradford herforingi með 47 stig, 8 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta en honum næstur var Brenton Birmningham með 17 stig, 8 fráköst, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Þeir Páll Kristinsson, Þorleifur Ólafsson og Helgi Jónas Guðfinnsson áttu allir fína spretti en hver um sig var með 9 stig í dag.
Yfirburðir Grindavíkur voru algerir í DHL-Höllinni í dag og mega KR-ingar heldur betur hysja upp um sig brækurnar ef þeir ætla ekki að fara í sumarfrí á laugardag.
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}