spot_img
HomeFréttirBoston Celtics unnu Phoenix Suns

Boston Celtics unnu Phoenix Suns

23:23:17
Boston Celtics létu fjarveru Kevins Garnett ekki á sig fá þegar þeir himesóttu Phoenix Suns fyrr í kvöld, heldur unnu góðan sigur, 128-120 , þar sem Rajon Rondo var í aðalhlutverki.
Eins og flestir vita vantar Suns einnig lykilleikmann þar sem Amare Stoudamire mátti leggjast undir hnífinn til að laga augnmeiðsli. Celtics mættu þó vel gíraðir í leikinn þar sem þeir tóku frumkvæðið snemma og héldu því allan tímann. Þeir virtust kunna vel við sig í hröðum leik Phoenix-manna, sem höfðu unnið þrjá leiki í röð og skorað 140 stig eða meira í öllum. Leikstjórnandinn Rondo var í essinu sínu og skoraði 32 stig og gaf 10 stoðsendingar, Ray Allen var ekki langt að baki honum með 31 stig og Paul Pierce bætti við 26.
Hjá Phoenix var Jason Richardson stigahæstur með 21 stig og Steve Nash var með 19 stig og 11 stoðsendingar.

Indiana-Chicago
Chicago gerði miklar breytingar á liði sínu í skiptaglugganum og er mál manna að þeir hafi frekar hagnast á skiptunum, en það kom þeim ekki að gagni í kvöld þegar þeir töpuðu fyrir vængbrotnu liði Indiana Pacers, 98-91 .

Pacers, sem eru án Danny Granger og Mike Dunleavy, voru komnir með ágætis forskot í upphafi seinni hálfleiks, en þá hrökk allt í baklás hjá þeim og þeir skoruðu ekki körfu utan af velli í heilar 11 mínútur. Bulls náðu þó ekki að nýta sér það að fullu því Pacers hrukku í gang í tæka tíð, tóku stjórnina á ný og unnu óvæntan sigur.

Toronto-NY Knicks    
Mike D‘Antoni ætlar að reynast þrautin þyngri að finan töfraformúluna með lið NY Knicks því þeir hafa verið afar ójafnir í vetur. Sérstakt áhyggjuefni er að vísu að eini vísirinn að stöðugleika að undanförnu er í töpum og í kvöld bættist eitt slíkt við þegar þeir sóttu lið Toronto Raptors heim. Andrea Bargnani leiddi sína menn til sigurs yfir Knicks, 111-100 , en hann hefur verið í miklum ham undanfarnar vikur og virðist ætla að uppfylla væntingarnar sem gerðar voru til hans þegar hann var valinn fyrstur í nýliðavalinu árið 2006.
Bargnani var með 28 stig og 10 fráköst fyrir Toronto sem skaust framúr með 12-0  kafla í upphafi  annars leikhluta og leiddi eftir það. Raunar voru fjórir leikmenn í byrjunarliði Raptors með tvöfalda tvennu, en það voru, auk Bargnanis, þeir Shawn Marion, Chris Bosh og Jose Calderon. Hjá Knicks var Al Harrington með 31 stig og Nate Robinson var með 18.

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -