Pétur Már Sigurðsson tekur slaginn með Fjölni í Domino´s deild karla í vetur. Þessi 36 ára gamla vélbyssa lét einna mest að sér kveða með Skallagrím og lék t.d. með Fjósamönnum 2006 þegar liðið spilaði til úrslita gegn Njarðvíkingum.
Pétur var ekkert nema hógværðin uppmáluð þegar Karfan.is setti sig í samband við kappann. „Ég er sjálfur að þjálfa hjá Fjölni í kringum meistaraflokksæfingarnar hjá Hjalta Vilhjálmssyni, þjálfara Fjölnis, og það kom bara einhver fiðringur í mig svo ég sló til. Maður er aðeins á eftir þessum drengjum en bilið er að styttast, þarf að gefa þessu tíma og þolinmæði,“ sagði Pétur en hann er ekki eina sleggjan sem er að rífa fram skóna á nýjan leik. Gunnar Einarsson verður í slagnum með Keflavík í vetur.
„Ég held að Gunni Einars taki mig í dag, tel að hann sé í „aðeins“ betra formi,“ sagði Pétur en hann og Gunnar munu báðir skella niður einhverjum þristum í vetur, svo mikið er ansi víst.
Mynd/ Pétur hefur komið víða við, leikið með Skallagrím, þjálfað og spilað með Laugdælum og leikið með KFÍ og nú Fjölni svo eitthvað sé nefnt.