spot_img
HomeFréttirBoras fékk 40 stig á sig í þriðja leikhluta!

Boras fékk 40 stig á sig í þriðja leikhluta!

Jakob Örn Sigurðarson gerði 11 stig í kvöld þegar Boras Basket fékk 86-114 ráðningu á heimavelli í FIBA Europe Cup í kvöld. Turk Telekom mættu þá í heimsókn og það sem stóð upp úr í leiknum var að gestirnir settu 40 stig á Boras í þriðja leikhluta!

Boras leiddi 29-27 eftir fyrsta leikhluta og 56-51 í hálfleik en þriðji leikhluti snérist upp í martröð sem fór 12-40 gestina í vil og eftirleikurinn því aldrei til umræðu og lokatölur 86-114 eins og áður greinir. 

Turk Telekom leikur í efstu deildinni í Tyrklandi og er þar í fimmtánda og næstneðsta sæti með þrjá sigra og tíu tapleiki. 

Jakob Örn gerði eins og áður segir 11 stig í leiknum og það á tæpum 32 mínútum, okkar maður var með 2-9 í teigskotum og þristarnir þrír vildu ekki niður. Þá var Jakob einnig með fjórar stoðsendingar og eitt varið skot. 

Boras hefur tapað báðum leikjunum sínum í Q-milliriðlinum, fyrst 94-68 gegn Oostende á útivelli og nú 86-114 gegn Turk Telekom á heimavelli. 

Israel Martin og lærisveinar í Bakken Bears fengu einnig ráðningu í kvöld því Danirnir steinlágu 91-67 gegn Juventus Utena. Bakken rétt eins og Boras hafa einnig tapað báðum leikjum sínum í milliriðlinum. 

Fréttir
- Auglýsing -