Kafteinn Sitton stýrir Njarðvíkurfleyinu af festu þessa dagana
Njarðvíkingar reyndust gestum sínum Breiðablik allt of sterkir þegar liðin áttust í 21. Umferð Iceland Express deildarinnar í gær. 111-78 var lokastaða leiksins þar sem að Blikar sáu aldrei til sólar. Njarðvíkingar tryggðu sér þar með 5 sæti deildarinnar og eiga enn veika von á 4 sætinu en þá þurfa þeir að treysta á að Keflvíkingar tapi í kvöld gegn Tindastól
Njarðvíkingar hófu leikinn gríðarlega sterkt og komust í 9-0. Gestirnir voru seinir í gang og langt frá því að vera tilbúnir í þennan leik. Á meðan skein leikgleði úr hverju andliti leikmanna Njarðvíkinga og höfðu þeir stöðuna 31-10 eftir fyrsta fjórðung. Í öðrum fjórðung fór að leysast um Nemanja Sovic í liði Blika og hélt hann liði sínu inn í leiknum ef svo má að orði komast en kappinn hafði sett 17 stig strax í fyrri hálfleik og var sjóðandi heitur. Hjá Njarðvíkingum voru stigum hinsvegar bróðurlega skipt og enginn einn sem hafði skorað mikið. Boltinn gekk vel manna á milli þangað til að það endaði í opnu skoti og þetta hefur ekki sést hjá Njarðvíkingum í allan vetur. 15 stig skildu liðin í hálfleik og var ekkert sem benti til þess að Blikar myndu ná einhverju út úr þessum leik þegar seinni hálfleikur hófst. Svo virðist sem leikmenn höfðu enga trú á því að hægt væri að koma til Njarðvíkur og hafa sigur og sást það langar leiðir þar sem að barátta þeirra var nánast engin.
Njarðvíkingar hinsvegar héldu áfram að þjarma að Blikum og voru að hitta gríðarlega vel úr skotum sínum. Svo fór að heimamenn unnu stórsigur á Breiðablik sem þarf nú að vinna sinn síðasta leik ætli þeir sér í úrsiltakeppnina, en þeir slást við Tindastólsmenn um síðasta sætið í keppninni. Það er greinilegt að þetta Njarðvíkurlið hefur gerbreyst eftir komu Heath Sitton. Ekki nóg með það að kappinn er nokkuð lunkinn við skorun heldur er hann skipstjórinn á velli sem stýrir Njarðvíkurfleyinu beint á afla mið. Hreyfing boltans í sókninni er gríðarlega góð og sú sókn sem var einhæf og tilviljanakennt hér fyrr er nú orðin stórhættuleg þar sem að boltinn er einnig farinn að berast inní teig meira en áður.