spot_img
HomeFréttirBinda Keflvíkingar í kvöld enda á verstu byrjun sína í úrvalsdeild?

Binda Keflvíkingar í kvöld enda á verstu byrjun sína í úrvalsdeild?

Keflvíkingar eru nú staddir á nýjum og framandi slóðum þegar tveimur umferðum er lokið í Domino´s deild karla því aldrei áður í sögu félagsins hefur liðið tapað tveimur fyrstu mótsleikjunum sínum. Í upphafi leiktíðar hafa þeir því sett nýtt og vafasamt félagsmet sem Keflvíkingar eru örugglega ekkert áfjáðir í að verði bætt í bráð og hvað þá tekið einum einasta leik lengra. Í kvöld fá Keflvíkingar KR í heimsókn og má gera ráð fyrir epískri baráttu þessara stórvelda.
 
KR-ingar eru engin lömb að leika sér við en bæði lið hafa átt skrykkjótta byrjun á tímabilinu þó röndóttir séu vissulega búnir að ná í sín fyrstu stig með sigri á Tindastól í síðustu umferð. Ef talinn er með Lengjubikarinn þetta árið er Keflavík ekki enn búið að vinna leik síðan leiktíðin hófst.
 
Á 11 af 29 tímabilum hafa Keflvíkingar unnið tvo fyrstu mótsleikina sína og 18 sinnum hafa þeir unnið einn leik af tveimur fyrstu tvær umferðirnar en aldrei fyrr en nú tapað báðum leikjunum. Allar forsendur fyrir svaðalegum slag í Toyota-höllinni í kvöld eru því fyrir hendi og er þetta leikur sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
 
Mynd úr safni/ Valur Orri og Keflvíkingar eru vísast orðnir langeygir eftir sigri. 
Fréttir
- Auglýsing -