Flestir bíða nú spenntir eftir stórslag kvöldsins en þá eigast við KR og Grindavík í Iceland Express deild karla. Karfan.is setti sig í samband við Benóný Harðarson en hann er gallharður stuðningsmaður Grindavíkur og ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum.
Hvað verður á boðstólunum í leik KR og Grindavíkur í kvöld?
Í kvöld verður á boðstólnum, barátta, spenna, skemmtilegheit og auðvitað Grindavíkursigur.
Hvaða leikmaður á eftir að njóta sín í þessum slag?
Ég held að Watson hjá Grindavík eigi eftir að sýna sitt allra besta í kvöld, einnig býst ég við Þorleifi sterkum, hann var eitthvað að hóta troðslu í þessum leik, en ég veit eins og flestir að hann geti ekki troðið lengur, sama hvað hann segir, hinum megin verður það Hreggviður sem verður erfiður fyrir Grindvíkinga, hann á að vísu ættir að rekja til Grindavíkur og því spurning hvort hann síni einhverja frændsemi í kvöld!
Hvort liðið vinnur í stúkunni?
Ég hygg að stúkan hjá Grindavík verði á tánum í kvöld, í morgun fengum við Hrafn Sveinbjarnason GK 255 í land en þar eru tveir af mestu stuðningsmönnum Grindavíkur um borð, það er því ekki spurning að það verði sungið Áfram Grindavík hátt og skýrt í DHL- höllinni í kvöld.
Hvaða leggja þjálfarar liðanna áherslu á í kvöld?
Ég held að þjálfararnir leggi mikla áherslu á vörnina, hún er það mikilvægasta í körfuboltanum og sérstaklega í svona stórum leikjum, þeir Helgi Jónas og Hrafn vita það og munu örugglega ná að berja menn upp í stemmningu í kvöld!
KR-Grindavík
DHL-Höllin
Kl. 19.15 í kvöld
Ef þú ert ekki þar þá ertu hvergi!